Hagnaður stóru viðskiptabankanna þriggja – Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans – nam samtals 23,8 milljörðum króna á fyrri helmingi þessa árs. Bankarnir þrír birtu uppgjör fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs í síðustu viku. Afkoman versnaði um tæplega fjórðung frá sama tímabili í fyrra þegar hagnaður bankanna nam 31,2 milljörðum króna. Fyrir banka-, tekju og fjársýsluskatt högnuðust bankarnir um tæplega 36 milljarða samanborið við 41,5 milljarða á fyrri helmingi 2017. Hagnaður af reglulegum rekstri bankanna eins og hann er skilgreindur af Bankasýslu ríkisins nam 23 milljörðum króna fyrir skatta og dróst saman um rúm 9% milli ára.

Mestur var hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins eða um 11,6 milljarðar samanborið við 12,6 milljarða á sama tíma í fyrra. Íslandsbanki hagnaðist um 7,1 milljarð sem er um 900 milljónum lægra en árið 2017. Þá hagnaðist Arion banki um 5 milljarða á tímabilinu og dróst hagnaður bankans saman um ríflega helming frá fyrri helmingi síðasta árs þegar hann nam um 10,5 milljörðum.

Ólík þróun tekna

Stærsti tekjuliður bankanna eru vaxtatekjur, einkum af útlánum til einstaklinga og fyrirtækja sem standa fyrir um 73% af heildareignum bankanna. Hreinar vaxtatekjur á tímabilinu námu samtals 49,3 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins og jukust um 1,3% milli ára. Nokkur munur var á þróun vaxtatekna milli ára hjá bönkunum þremur. Hreinar vaxtatekjur Landsbankans námu 19,5 milljörðum og jukust um 7,2% milli ára. Þær jukust um 0,9% hjá Íslandsbanka og námu 15,3 milljörðum. Hreinar vaxtatekjur Arion banka drógust hins vegar saman um 5,2% milli ára og námu 14,5 milljörðum á tímabilinu.

Aðra sögu er hins vegar að segja af þróun þóknunartekna bankanna milli ára en þær hljótast meðal annars af greiðsluþjónustu, eignastýringu, fyrirtækjaráðgjöf og markaðsviðskiptum. Hreinar þóknunartekjur námu 17,7 milljörðum samanborið við 18,1 milljarð í fyrra. Hreinar þóknunartekjur Arion banka jukust um 17,5% frá sama tímabili í fyrra og námu rúmum 8 milljörðum. Hreinar þóknunartekjur Landsbankans námu um 3,9 milljörðum og lækkuðu um 12,5% milli ára og þá drógust þær saman um 14,7% hjá Íslandsbanka og námu 5,8 milljörðum. Ástæðu þess að þóknunartekjur Landsbankans eru lægri en hjá hinum bönkunum má að hluta til rekja til þess að ekkert kortafyrirtæki er hluti af samstæðu Landsbankans. Hins vegar er kortafyrirtækið Valitor að fullu í eigu Arion banka auk þess sem Íslandsbanki á 63,5% hlut í Borgun.

Tekjur af eignastýringu, markaðsviðskiptum og fyrirtækjaráðgjöf, starfsþættir sem oftast eru taldir til fjárfestingabankastarfsemi, námu 6,5 milljörðum á fyrri helmingi ársins og drógust saman um 100 milljónir króna á milli ára. Tekjur af stöðutökum í fjármálagerningum, skráðum og óskráðum verðbréfum og áhættuvörnum námu samtals 4,2 milljörðum á fyrri helmingi ársins og drógust saman um tæplega helming frá síðasta ári. Af þessum 4,2 milljörðum standa tekjur Arion banka og Landsbankans nánast fyrir þeim öllum en tekjur Íslandsbanka af þessum þætti nam aðeins 95 milljónum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .