*

föstudagur, 19. október 2018
Innlent 25. apríl 2018 17:09

Hagnaður Eikar eykst um 45%

NOI hlutfall Eikar var 73,4% á fyrsta ársfjórðungi og lækkaði um 0,6 prósentustig á milli ára.

Ritstjórn
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Eikar á fyrsta ársfjórðungi ársins nam 1.103 milljónum króna og jókst um tæp 45% á milli ára. NOI nam tæpum 1.202 milljónum króna samanborið við 1.083 milljónir á sama tímabili í fyrra. NOI hlutfallið var 73,4% og lækkaði um 0,6 prósentustig á milli ára. Þá nam stjórnunarkostnaður sem hlutfall af leigutekjum 5,2 og lækkaði um 0,4 prósentustig á milli ára.

Matsbreyting fjárfestingareigna var jákvæð um 884 milljónir í ár en hækkunin ríflega tvöfaldaðist á milli ára. Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 914 milljónir króna samanborið við 616 milljónir í fyrra.

Fjárfestingareignir Eikar hafa hækkað um tæpa 1,7 milljarða frá áramótum og voru 86,7 milljarðar í lok tímabilsins. Virðisútleiguhlutfall nam 96,0% og lækkaði um 1,2 prósentustig samanborið við sama tímabil í fyrra.

Veðhlutfall Eikar, þ.e vaxtaberandi skuldir sem hlutfall af fasteignum félagsins, nam 63,9% en vaxtaberandi skuldir hafa aukist um tæpa 3 milljarða á fyrstu þremur mánuðum ársins. 

Handbært fé Eikar nam 3.787 milljónum króna samanborið við 1.481 milljón í lok ársins 2017.