Hagnaður Eimskips nam 4,9 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi, en á sama tíma í fyrra nam hann 8,8 milljónum evra. Er um að ræða 44% samdrátt á milli ára. Í krónum talið nam hagnaðurinn í apríl, maí og júní af starfsemi fyrirtækisins 621,7 milljónum.

Á sama tíma jukust tekjur félagsins um 37,2%, eða 47 milljónir evra og námu þær 173,1 milljón evra á tímabilinu, sem samsvarar tæpum 22 milljörðum króna. Kostnaðurinn jókst hins vegar einnig eða um 1,1 milljón evra á milli ára, en að auki námu breytingar á gengismun 3,2 milljónum evra.

Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins var 54,5% og nettóskuldir þess námu 77,8 milljónum evra í lok júní. Afkomuspá fyrirtækisins er óbreytt, með EBITDA á bilinu 57 til 63 milljónir evra.

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum jókst um 3,5% og hækkuðu tekjur af þeim um 21,5 milljónir evra eða 22,4%. Flutningsmagn í flutningsmiðlun jókst um 39,6% og tekjur hækkuðu um 25,4 milljónir evra eða 84,3%, þar af voru 22,0 milljónir evra vegna nýrra félaga

Forstjóri bendir á gengissveiflur

„Árangur fjórðungsins litaðist af gengissveiflum. Rekstrarreikningur félagsins er tiltölulega vel varinn fyrir gengissveiflum en efnahagsreikningurinn er opnari gagnvart þeim. Um 6,5% veiking Bandaríkjadollars gagnvart evru og um 3,7% styrking íslensku krónunnar gagnvart evru á öðrum ársfjórðungi leiddi til 2,0 milljóna evra gengistaps.

Samanborið við 1,2 milljóna evra gengishagnað á öðrum ársfjórðungi 2016 nemur neikvæður viðsnúningur á milli ára 3,2 milljónum evra,“ segir Gylfi Sigfúson forstjóri meðal annars í fréttatilkynningu fyrirtækisins.

„Rekstrargjöld fjórðungsins hækkuðu um 46,4 milljónir evra eða 42,2% samanborið við annan ársfjórðung í fyrra. Rekstrargjöld í áætlunarsiglingum hækkuðu um 27,9% og um 80,6% í flutningsmiðlun. Hækkun kostnaðar í áætlunarsiglingum skýrist einkum af kostnaði tengdum aukinni afkastagetu siglingakerfisins, kostnaði tengdum ójafnvægi í flutningum til og frá Íslandi og hærri olíukostnaði.

Einnig hærri launakostnaði bæði vegna styrkingar íslensku krónunnar og vegna almennra launahækkana og aukinna umsvifa. Hækkun rekstrargjalda í flutningsmiðlun er aðallega tilkomin vegna nýrra flutningsmiðlunarfyrirtækja og hærri verða á alþjóðaflutningamarkaði.

Eimskip jók afkastagetu siglingakerfisins um 7-11% í febrúar með því að breyta siglingaleiðum og bæta við einu skipi, en við það hækkaði kostnaður kerfisins á meðan öflun nýrra tekna tekur lengri tíma. Ójafnvægi á milli inn- og útflutnings tengdum Íslandi hefur aukist, þar sem innflutningur jókst verulega á fyrstu sex mánuðum ársins, einkum vegna flutninga á bifreiðum og byggingavörum, á sama tíma og útflutningur dróst saman, einkum vegna sjómannaverkfallsins á fyrsta ársfjórðungi.

Þetta ójafnvægi leiðir til aukins kostnaðar vegna yfirvinnu í hafnarstarfseminni og kostnaðar vegna leigu á skipum til að annast endurstaðsetningu gáma og flutning á viðbótarmagni. Eimskip hefur brugðist við þessum viðbótarkostnaði með því að auka hagkvæmni í hafnarstarfsemi og með því að leggja á gámastaðsetningargjald (Container Positioning Charge, CPC) frá 1. júní 2017.

EBITDA nam 16,7 milljónum evra á fjórðungnum samanborið við 16,2 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi í fyrra, en 1,1 milljónar evra kostnaður vegna ójafnvægis í flutningum hafði áhrif á afkomu fjórðungsins.“