Hagnaður Eimskips á fyrsta ársfjórðungi 2017 nam 0,2 milljónum evra borið saman við 1,8 milljón á sama tímabili í fyrra. Hagnaður félagsins minnkar um 89% milli ára. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Eimskips. Hægt er að nálgast uppgjörið hér .

Tekjur námu 146,9 milljónum og jukust um 29,7% milli ára, þrátt fyrir sjómannaverkfallið hér á landi sem hafði áhrif á flutt magn frá landinu. Samkvæmt tilkynningu frá Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips, skýrist tekjuvöxturinn af nýjum fyrirtækjum í samstæðunni og innri vexti, einkum vexti í flutningsmagni og hækkandi verði á alþjóðaflutningamarkaði.

EBITDA nam 9,3 milljónum evra og dróst saman um 3,3% milli ára. Eiginfjárhlutfall félagsins var 56,6% og nettóskuldir 50,4 milljónir evra í lok mars.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, segir ársfjórðunginn hafa verið í samræmi við væntingar. Afkomuspá félagsins fyrir árið er óbreytt og liggur EBITDA-spá félagsins á bilinu 57 til 63 milljónir evra.