Eimskip hefur birt uppgjör fyrir síðasta ár en hagnaður félagsins jókst um tæplega þriðjung milli ára. Hagnaður félagsins á árinu var 2,53 milljarðar króna, samanborið við 1,93 milljarða árið áður. Þetta er 30,8% aukning milli ára.

Rekstrartekjur Eimskips voru ríflega 71 milljarður og jukust um rúmlega 6,8 milljarða frá fyrra ári. EBITDA félagsins nam 6,4 milljörðum, samanborið við 5,4 árið áður.

Flutningsmagn í áætlunarsiglingum á Norður-Atlantshafi jókst um 4,2% á milli ára og flutningsmagn  í frystiflutningsmiðlun jókst um 7,5% á milli ára. Eiginfjárhlutfall var 64,2% og nettóskuldir námu 35,4 milljónum evra í árslok.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði út arður sem nemur 6,5 krónur á hlut, en það er 30% meira en í fyrra. Heildarupphæðin nemur 1,2 milljörðum króna.

Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips:

„Rekstrarniðurstaða ársins 2015 var í samræmi við væntingar okkar, 10,6% tekjuvöxtur og 17,3% hækkun EBITDA frá fyrra ári. Árið skilaði hæstu rekstrartekjum og EBITDA frá árinu 2009. Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 4,2% á milli ára. Mikill vöxtur var í flutningum tengdum Íslandi á meðan magn tengt Færeyjum dróst lítillega saman vegna breytts flutningamynsturs á uppsjávarfiski. Góður gangur hefur verið í Noregi eftir erfiðleika á fyrsta ársfjórðungi. Flutt magn í frystiflutningsmiðlun jókst um 7,5% á milli ára.

Á árinu 2015 gekk félagið frá kaupum á fimm fyrirtækjum sem hafa verið innleidd í samstæðuna og eru að skila góðri afkomu. Félagið heldur áfram að meta möguleg fjárfestingartækifæri til vaxtar í samræmi við stefnu félagsins. Sterk fjárhagsstaða Eimskips og þau tækifæri sem eru í greininni setja félagið í góða stöðu til að ráðast í slík verkefni.“