Hagnaður Facebook á öðrum ársfjórðungi nam 3,9 milljörðum dollara eða því sem jafngildir ríflega 406 milljörðum króna miðað við gengi dagsins í dag. Hagnaður félagsins jókst um 71% milli ára. Einnig jukust tekjur Facebook um 45% á öðrum ársfjórðungi þessa árs miðað við annan ársfjórðungs síðasta árs. Tekjur Facebook á tímabilinu námu 9,3 milljörðum dollara eða því sem nemur 968,5 milljörðum króna.

Ríflega tveir milljarðar nota nú Facebook mánaðarlega - sem er yfir fjórðungur allra íbúa heimsins. 1,3 milljarðar nota Facebook daglega. Tekjuaukning Facebook á ársfjórðungnum skýrist að mestu leyti af auknum auglýsingatekjum. „Við áttum góðan annan ársfjórðung og það gekk vel á fyrri helmingi þessa árs,“ segir Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook. Félagið hefur verið að reyna að auka við auglýsingar á samfélagsmiðlum sínum, og reynir nú í óða önn að tekjuvæða félagsmiðlana Instagram og WhatsApp, sem eru í eigu Facebook.

Gengi hlutabréfa félagsins hefur hækkað statt og stöðuglega á þessu ári en frá áramótum hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 43,95% (Year-to-Date). Í viðskiptum árla morguns hækkaði gengi bréfa Facebook um 3,73% og er hvert bréf nú metið á 172,27 dollara. Markaðsvirði félagsins nálgast nú 500 milljarða dollara eftir gott gengi félagsins. Hægt er að lesa nánar um uppgjörið í eftirfarandi fréttum: BBC , Financial Times , Reuters , og CNN Money .