Hagnaður félagsins Festi, sem áður nefndist N1, nam um 983 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs er fram kemur í uppgjöri félagsins. Heildarhagnaðurinn nam 1.004 milljónum með tilkomu hagnaðar erlendra hlutdeildarfélaga, en félagið á m.a. hlut í Malik Supply, dönsku olíufélagi með starfsemi á Grænlandi. Til samanburðar nam heildarhagnaðurinn á sama tímabili í fyrra 990 milljónum króna en 962,7 milljónum án hlutdeildarfélaganna.

Rekstur félaga í samstæðu dótturfélagsins Hlekks, sem áður hét Festi, var tekinn inn í samstæðu Festi frá og með 1. september og skýrir að mestu hækkanir á tekjum og gjöldum á þriðja ársfjórðungi í samanburði við sama tímabil í fyrra.

Framlegð félaga í samstæðu Hlekks var 757 milljónum króna, EBITDA 250 milljónum króna og hagnaður 104 milljónum króna. EBITDA Festi að undanskildum kostnaði við kaup á Hlekk nam 1.784 milljónum króna á ársfjórðungnum samanborið við 1.461 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Framlegð af vörusölu jókst um 28,7% á 3F 2018 sem skýrist að mestu af nýjum félögum í samstæðu frá 1. september en hækkun á olíuverði og veiking íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadollara hafði einnig jákvæð áhrif á 3F 2018 Eigið fé var 25.512 m.kr. og eiginfjárhlutfall 31,8% í lok 3F 2018.

Ath. fréttin hefur verið uppfærð, en félagið sendi frá sér leiðréttingu uppúr 2:00 í nótt þar sem hagnaðurinn hafði verið vantalinn, því vaxtagjöld höfðu verið oftalin um 140 milljónir króna og tekjuskattur vantalinn um 28 milljónir króna.