Hagnaður Gamma Capital Management jókst úr 417 milljónum króna árið 2015 í 846 milljónir króna árið 2016, sem er rúmlega tvöföldun. Er þá miðað við hagnað eftir skatta, en heildartekjur félagsins námu 2.156 milljónum króna, meðan rekstrarkostnaðurinn var um 1.059 milljónir króna.

Eigið fé Gamma í árslok 2016 nam 1.728 milljónum króna en eiginfjárlhlutfall félagsins var 52,2%, en lágmarkskrafan er 8%, að því er fram kemur í frétt frá félaginu.

Þrír nýir sjóðir á þessu ári

Félagið var með 33 sjóði í rekstri á síðasta ári, tvo verðbréfasjóði, sex fjárfestingarsjóði og 25 fagfjárfestasjóði, en þrír nýir erlendir sjóðir voru stofnaðir á árinu og er stefnt að stofnun þriggja annarra sjóða á þessu ári.

Í lok ársins voru rúmlega 115 milljarðar króna í stýringu hjá Gamma, og voru að meðaltali 21 starfsmaður hjá félaginu.

Aukin fjárfestingartækifæri erlendis

„Uppgjör ársins sýnir að rekstur GAMMA stendur traustum fótum,“ er haft eftir Gísla Haukssyni, stjórnarformanni félagsins í frétt frá Gamma.

„Félagið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun árið 2008 og var með um 115 milljarða króna í stýringu um síðustu áramót. Rekstur sjóðanna gekk vel á síðasta ári og ávöxtun var góð í öllum helstu eignaflokkum. Skýrist sá árangur fyrst og fremst af sýn og trú GAMMA á fjárfestingum í íslenska hagkerfinu. Á sama tíma heldur viðskiptavinum áfram að fjölga.“

Gamma fékk í fyrra sjálfstætt starfsleyfi frá fjármálaeftirliti Bretlands og segja þeir starfsemina þar hafa fjölgað fjárfestingartækifærum erlendis samhliða losun gjaldeyrishafta. „Ásamt hefðbundinni starfsemi kemur GAMMA rausnarlega að eflingu íslenskrar menningar og lista heima og erlendis ásamt því að taka þátt í öðrum samfélagslegum verkefnum,“ segir jafnframt í frétt fyrirtækisins.