Hagnaður bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs Group Inc. hefur fjórfaldast milli ára. Skuldabréfasviðinu má líklegast þakka fyrir árangurinn, en aukin umsvif þar leiddu til aukins hagnaðar. Goldman Sachs er þó ekki eini bankinn sem hefur grætt á aukinni veltu á skuldabréfamörkuðum, sem hefur komið í kjölfar kosningasigurs Trumps.

Hagnaður á hlut nam 5,08 dölum og var þar með talsvert yfir þeim 4,82 dala hagnaði á hlut sem greiningaraðilar höfðu spáð fyrir um.

Hagnaður fyrirtækisins nam þá 2,2 milljörðum á fjórða fjórðungi 2016, en hafði numið 574 milljónum dala ári áður. Þess ber þó að geta að árið 2015 hafði fyrirtækið þurft að eyða 5 milljörðum dala í lögfræðikostnað. Tekjur félagsins jukust þá um 12 prósent milli ára.

Tekjur skuldabréfasviðsins hækkuðu þá um 78% og námu rúmlega 2 milljörðum dala. Tekjur skuldabréfasviðsins hafa þá ekki verið jafn háar frá fyrsta ársfjórðungi 2015.

Tekjur af hlutabréfaviðskiptum lækkuðu þá um 9% og námu 1,6 milljörðum dala.