Árshlutareikningur Haga hf. fyrir tímabilið 1. mars 2016 til 30. nóvember 2016 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi í dag. Árshlutareikningurinn hefur eins og vanalega að geyma samstæðureikninga félagsins og dótturfélaga þess og er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla.

Sala og framlegð aukast

Vörusala tímabilsins nam 59.663 milljónum króna, samanborið við 57.177 milljónir króna árið áður. Um er að ræða 4,3% söluvöxt á tímabilinu. Framlegð félagsins var þá 14.867 milljónir króna, samanborið við 13.985 milljónir króna árið áður. Framlegðin í prósentum fór því úr 24,5% í 24,9%. Kostnaðarhlutfallið hækkar þó aðeins úr 17,4% í 17,5%.

EBITDA félagsins nam 4.578 milljónum króna, samanborið við 4.141 milljónir króna árið áður. EBITDA framlegð var þá 7,7%, samanborið við 7,2% árið áður.

Hagnaður tímabilsins fyrir skatta nam 3.794 milljónum króna, samanborið við 3.539 milljónir króna árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 3.035 milljónum króna á tímabilinu, sem jafngildir 5,1% af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 2.831 milljónir.

Helstu tölur

  • Hagnaður tímabilsins nam 3.035 milljónum króna eða 5,1% af veltu.
  • Vörusala tímabilsins nam 59.663 milljónum króna.
  • Framlegð tímabilsins var 24,9%.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4.578 milljónum króna.
  • Heildareignir samstæðunnar námu 30.764 milljónum króna í lok tímabilsins.
  • Handbært fé félagsins nam 3.028 milljónum króna í lok tímabilsins.
  • Eigið fé félagsins nam 16.412 milljónum króna í lok tímabilsins.
  • Eiginfjárhlutfall var 53,3% í lok tímabilsins.

Eiginfjárhlutfallið í 53,5%

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 30.764 milljónum króna. Fastafjármunir voru 17.152 milljónir króna og veltufjármunir 13.612 milljónir króna. Þar af eru birgðir 5.732 milljónir króna en birgðir voru 6.332 milljónir króna ári áður.

Eigið fé félagsins var 16.412 milljónir króna í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall 53,3%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 14.352 milljónir króna, þar af voru langtímaskuldir 4.450 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 4.000 milljónum króna, samanborið við 3.871 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 1.222 milljónir króna. Fjármögnunar-hreyfingar tímabilsins voru 3.560 milljónir króna og þar af voru 1.992 milljónir króna vegna arðgreiðslu í júní sl. og 1.000 milljónir króna vegna kaupa félagsins á eigin bréfum. Handbært fé í lok tímabilsins var 3.028 milljónir króna, samanborið við 2.727 milljónir króna árið áður.