Hagnaður HB Granda nam 26,2 milljónum evra árið 2016 og er þar með 41% lægri en árið 2015, þegar félagið hagnaðist um 44,5 milljónir evra.

Rekstrartekjur ársins 2016 námu alls 201,2 milljónum evra, samanborið við 225,5 milljónir árið áður.  EBITDA ársins nam þá 44,3 milljónum evra árið 2016, en 54,2 milljónum evra árið 2015.

Fjórði ársfjórðungur

Óhætt er að segja að verkfall sjómanna hafi haft áhrif á félagið á síðsta fjórðungi ársins 2016, þó erfitt sé að áætla nákvæmar tölur.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 48,7 milljónum evra árið 2016, en höfðu staðið í 58,9 milljónum evra árið  áður.

Hagnaðurinn fór svo úr 13,3 milljónum árið 2015 í 1,1 milljón árið 2016, sé bara miðað við síðasta ársfjórðunginn.

Bakfærð var virðisrýrnun að fjárhæð 8,8 milljónum evra vegna aflaheimilda í botnfiski og þá var innleystur 3,8 milljón evra söluhagnaður í dótturfélagi HB Granda.

Virði heildareigna hafa hækkað

Heildareignir félagsins námu 450 milljónum evra í árslok 2016. Þar af voru fastafjármunir 372,6 milljónir evra og veltufjármunir 77,4 milljónir evra.

Eigið fé nam þá 250,1 milljón evra og var eiginfjárhlutfallið alls 56%, en 62% í lok ársins 2015.

Heildarskuldir félagsins í árslok 2016 námu 199,9 milljónum evra.

Vilja greiða 1 krónu í arð

Stjórn félagsins leggur til að greiða 1 krónu á hlut í arð. Arðgreiðslan myndi því í heildina nema um 15,3 milljónum evra á lokagengi ársins 2016.

Um er að ræða 3,8% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2016.