*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 12. júlí 2018 08:54

Hagnaður hjá Norwegian kom á óvart

Rekstur Norwegian skilaði sem samsvarar um fjögurra milljarða íslenskra króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Rekstur Norwegian, umsvifamesta flugfélags Norðurlanda, skilaði sem samsvarar um fjögurra milljarða íslenskra króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi eða 296 milljónum noskra króna. Þetta kemur fram á vef Túrista.

Á sama tíma í fyrra nam tapið um 9 milljörðum íslenskra króna og kom því þessi niðurstaða greinendum verulega á óvart. Síðustu daga hafa norrænir bankar og fjármálastofnanir nefnilega spáð því að tapið af rekstrinum yrði að jafnaði álíka mikið og í fyrra.

Í frétt norska viðskiptablaðsins er haft eftir fjármálastjóra Norwegian að ein helsta skýringin á hinni jákvæðu afkomu megi skrifa á hagstæðari kjör hjá birgjum, til að mynda á leigu flugvéla. Þá skilaði hagstæð gjaldeyrisþróun líka miklu.

Vöxtur Norwegian hefur verið mjög hraður síðustu ár og þannig jókst framboð flugfélagsins um nærri helming á síðasta ársfjórðungi. Fjárhagslegur styrkleiki félagsins hefur hins vegar verið töluvert til umræðu enda þurfti félagið að leita eftir auknu hlutafé nú í vor. Móðurfélög British Airways og Lufthansa hafa lýst yfir áhuga á að kaupa félagið.