Hagnaður leigufélagsins Heimavalla nam tæpum 50 milljónum króna í fyrra, samanborið við rúma 2,7 milljarða árið áður, en matsbreyting eigna fór úr 3,7 milljörðum 2017 í 111 milljónir 2018, samkvæmt ársreikningi félagsins.

Á sama tíma má þó segja að grunnreksturinn hafi styrkst: leigutekjur voru 3,7 milljarðar og jukust um 19% milli ára þrátt fyrir 4% fækkun íbúða, og rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu nam 2,2 milljörðum, 61% af veltu, og jókst um 39% frá fyrra ári, en þá nam hann 52% af veltu.

Endanlegur rekstrarhagnaður nam 2,9 milljörðum og helmingaðist milli ára. Hrein fjármagnsgjöld námu 2,8 milljörðum og hækkuðu um 44%, en þar af voru verðbætur 863 milljónir og hækkuðu nokkuð milli ára, að því er fram kemur.

Haft er eftir Guðbrandi Sigurðssyni, framkvæmdastjóra félagsins, að miklar og góðar breytingar hafi komið fram á rekstri félagsins á árinu 2018. Sé litið sérstaklega til seinni árshelmings síðasta árs sé rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu sem hlutfall af veltu 64,4%, en áætlanir félagsins fyrir árið 2019 geri ráð fyrir að hlutfallið verði 64-65%.

Litlar breytingar urðu á efnahagsreikningi félagsins. Heildareignir jukust lítillega og námu 57 milljörðum, eigið fé sömuleiðis og nam 18,8 milljörðum. Eiginfjárhlutfall nam því 33,1%, samanborið við 31,4% árið áður.

Félagið seldi eignir fyrir 6,2 milljarða á árinu og söluhagnaður vegna þeirra nam tæpum 500 milljónum, og virði fjárfestingareigna um síðustu áramót var 53 milljarðar.