Á fyrri hluta ársins var heildarhagnaður HS Veitna hf. 346 milljónir króna, en á sama tímabili í fyrra nam hagnaðurinn 404 milljónum króna. Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að skýringin á þessari 58 milljón króna minnkun hagnaðar megi að mestu skýrast af skerðingu raforku til kyndistöðvar í vestmannaeyjum í sjö vikur vegna bilunar á sæstreng, sem kostaði félagið um 60 milljónir.

Einnig hafi sjómannaverkfallið fyrstu tvo mánuði ársins dregið úr raforkunotkun um 5% miðað við sama tímabil árið 2016.

Tekjur félagsins jukust þó á milli ára, eða um 4,5%, en rekstrartekjur félagsins á tímabilinu námu 3.050 milljónum króna, en á sama tíma í fyrra námu þær 2.919 milljónum. Hækkun kostnaðarverðs á milli ára nam á sama tíma 9,8%, svo hlutfall kostnaðarverðs miðað við tekjur fór úr 67,5% í 69,0%.

Í heild hækkaði flutningskostnaður á heitu vatni og raforku um 48 milljónir króna á milli ára, sem félagið segir að sé alfarið vegna hækkunar frá Landsneti. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 14 milljónir króna,  og fór í 318 milljónir króna.

Rekstrartekjur fyrir fyrstu sex mánuði ársins skiptast þannig að 1.544 milljónir króna komu til vegna raforkudreifingar og flutnings, 998 milljónir króna vegna sölu og dreifingar á heitu vatni, 322 milljónir króna vegna sölu og dreifingar á fersku vatni og 185 milljónir króna vegna annarrar starfsemi.

EBITDA félagsins nam 973 milljónum króna á fyrri helmingi ársins, og er EBITDA hlutfallið 31,9%, en á sama tímabili í fyrra var hún 1.002 milljónir og hlutfallið 34,3%. Eignir félagsins lækkuðu um 170 milljónir á milli ára, en þær voru bókfærðar á 20.534 milljónir króna þann 30. júní síðastliðinn. Fjárfestingar félagsins í rekstrarfjármunum námu 760 milljónum króna.