Mikill rekstrarkostnaður er sögð vera helsta ástæðan fyrir því að hagnaður HSBC banka hefur dregist saman á öðrum ársfjórðungi þessa árs en bankinn jók við fjárfestingar sínar í tækni og stækkaði starfsstöðvar sínar í Kína. Þetta kemur fram í frétt Financial Times . Um þrír fjórðu af hagnaði bankans kemur frá Asíu.

Ársreikningurinn var birtur nú þegar viðskiptastríð kínverja og bandaríkjamanna stendur sem hæst en það stríð mun koma til með að hafa mikil áhrif á væntingar fjárfesta.

Bankinn tilkynnti í dag að leiðréttur rekstarkostnaður (e. adjusted operating expenses) yrði 8,1 milljarður bandaríkjadala á þessum ársfjórðungi en það er 7% hærra en kostnaðurinn var á sama tíma í fyrra.

Hagnaður fyrir skatta minnkaði um 1% á þessum ársfjórðungi meðan heildarhagnaður bankans hækkaði um 5,6% í 4,1 milljarð bandaríkjadollara.

Ástæður fyrir hærri rekstrarkostnaði bankans eru mikil fjárfesting bankans á smásölumarkaði sem og uppbyggingu eininga bankans. En þær fjárfestingar eru hluti af þeirri stefnu sem forstjóri bankans, John Flint, innleiddi í júní síðastliðnum.