Icelandair Group hefur birt ársuppgjör fyrir síðasta ár. Hagnaður síðasta árs nam 111,2 milljónum Bandaríkjadala, eða 14,1 milljarði króna. Þetta er töluverð aukning hagnaðar frá árinu áður, en aukningin nemur 44,7 milljónum dala, eða 67%.

EBITDA 2015 nam 219,0 milljónum dala samanborið við 154,3 milljónir dala árið 2014. Rekstrartekjur jukust um 2% á milli ára og tekjuaukning á föstu gengi nam 12%. EBITDA á fjórða ársfjórðungi var jákvæð um 20,1 milljón USD en var neikvæð um 1,5 milljónir USD á sama tímabili á síðasta ári. Eiginfjárhlutfall batnar milli ára. Hlutfallið var 47% í árslok 2015 samanborið við 43% árið áður.

Félagið leggur til að greiða arð sem nemur 3,5 milljörðum króna til hluthafa, eða 0,7 krónur á hlut.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group:

„Rekstur félagsins gekk vel á árinu og afkoman er betri en áætlanir stjórnenda gerðu ráð fyrir í upphafi árs og EBITDA ársins er við efri mörk síðustu afkomuspár félagsins. Margir samverkandi þættir hafa jákvæð áhrif á sterkt ársuppgjör. Þar má nefna lækkandi eldsneytisverð, aukna eftirspurn á Norður-Atlantshafsmarkaðinum sem við höfum mætt með auknu framboði ásamt góðri afkomu í leiguflugi og fraktflugi. Þá hefur nýting á hótelherbergjum aukist talsvert milli ára.

Á undanförnum árum höfum við fylgt skýrri stefnu með það að markmiði að tryggja arðbæran vöxt félagsins til langs tíma. Við viljum að innri vöxtur félagsins sé sjálfbær og taki mið af aðstæðum á hverjum tíma. Undanfarin ár höfum við jafnframt lagt ríka áherslu á að styrkja rekstur félagsins utan háannatímans og það er mjög ánægjulegt að sjá mikinn rekstrarbata á fjórða ársfjórðungi. Sterk eiginfjárstaða og undirliggjandi sjóðstreymi tryggja getu okkar til að ráðast í arðbærar fjárfestingar sem auka samkeppnishæfni til langs tíma. Frá og með árinu 2010 hefur verið góður stígandi í rekstri Icelandair Group og hafa tekjur vaxið úr 718 milljónum USD árið 2010 í 1.140 milljónir USD árið 2015, eða um 422 milljónir USD.