Tekjur Ísavia á síðasta ári námu 41,8 milljörðum króna sem er 10% meira en árið 2017. Hagnaður félagins var 4,2 milljarðar króna sem er tæp 8% aukning milli ára. Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segir í tilkynningu með ársreikningnum, sem birtur var í dag, að þrátt fyrir hægari farþegaaukningu á síðari helmingi ársins hafi rekstrarafkoma verið í samræmi við fjárhagsáætlanir.

„EBITDA, þ.e. afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, hækkar um tæpan einn og hálfan milljarð króna eða 15 prósent. Heildareignir námu 79,8 milljörðum króna í árslok 2018 og hækkuðu um 7,3 milljarða króna milli ára. Staða handbærs fjár var áfram góð um síðustu áramót sem og aðgengi félagsins að lánsfé til áframhaldandi uppbyggingar. Skattaspor Isavia var 9.153 m.kr. fyrir árið 2018. Það er sá hluti sem samstæðan greiðir eða innheimtir í formi skatta og opinberra gjalda, ásamt mótframlagi í lífeyrissjóði starfsfólks,“ er haft eftir Birni í tilkynningu frá félaginu.

„Aukin umsvif og vöxtur kallar á nýjar lausnir auk þess sem miklar áskornir eru í heiminum, Með það í huga var stefna Isavia endurskoðuð. Aukin áhersla var sett á samfélagsábyrgð í samræmi við stefnu félagsins sem var sett um málaflokkinn árið 2016. Við munum vinna áfram að innleiðingu stefnunnar í samvinnu við starfsfólk okkar, viðskiptafélaga og nærsamfélagið,“ skrifar Björn, forstjóri Isavia.