Hagnaður Íslandsbanka á fjórða ársfjórðungi 2018 rúmlega helmingaðist á milli ára, eða úr 3,1 milljarði króna á sama tíma 2017, í 1,4 milljarða. nemur lækkunin rétt tæplega 54,8%.

Arðsemi eigin fjár bankans á tímabilinu lækkaði einnig um rúmlega helming, eða úr 6,9% í 3,2%. Hagnaður af reglulegri starfsemi bankans á síðustu þremur mánuðum ársins fór úr 3,6 milljörðum í 2,1 milljarð.

Hreinar vaxtatekjur bankans hækkuðu á milli ára fyrir tímabilið um milljarð, eða úr 7,3 milljörðum í 8,3 milljarða. Hreinar þóknanatekjur drógust hins vegar lítillega saman eða úr 3,6 milljörðum í 3,5 milljarða.

Helmingur fari í arðgreiðslu

Hagnaður Íslandsbanka fyrir allt árið í fyrra, eftir skatta dróst saman mun minna, eða úr 13,2 milljörðum króna árið 2017 í 10,6 milljarða. Það gerir 19,5% samdrátt á milli ára. Stjórn bankans leggur til að 5,3 milljarðar af hagnaði ársins verði greiddur út sem arður til eigenda, sem er ríkið í tilfelli Íslandsbanka.

Arðsemi eigin fjárs félagsins dróst einnig saman á milli áranna, eða úr 7,5%, niður í 6,1% á ársgrundvelli. Hagnaður af reglulegri starfsemi bankans minnkaði minna, eða úr 13,8 milljörðum 2017 í 12 milljarða í fyrra.

Hreinar vaxtatekjur bankans námu 31,9 milljörðum króna, sem er 6,5% aukning frá fyrra ári þegar þær námu 30 milljörðum króna, en vaxtamunurinn var sá sami, eða 2,9%.

Hreinar þóknanatekjur bankans drógust þó saman, eða úr 13,8 milljörðum í 12,2 milljarða, sem er 11% lækkun hjá samstæðunni. Þóknanartekjur móðurfélags og Íslandssjóða hækkuðu hins vegar um 6% á milli 2017 og 2018.

Stjórnunarkostnaður bankans hækkaði um 700 milljónir eða þar um bil, en hann var 27 milljarðar árið 2017. Útlán til viðskiptavina jukust á milli áranna um 12%, eða 91,4 milljarða á árinu 2018, og stóðu þau í 846,6 milljörðum í lok ársins. Námu ný útlán á árinu 239 milljörðum króna. Innlán jukust á sama tíma um 2,1%, eða 11,9 milljarða og námu 579 milljörðum í lok ársins.

Ánægja með að mælast aftur hæst hjá viðskiptavinum

Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka segir að á síðasti ári hafi stafræn þróun verið í forgangi hjá  Íslandsbanka með innleiðingu nýs grunnkerfis sem hún segir  stærsta tækniverkefni bankans frá stofnun. Auk þess hafi bankinn kynnt til leiks fjölmargar nýjar stafrænar lausnir fyrir viðskiptavini.

Við erum glöð að mælast aftur hæst hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu á Íslandi og sjötta árið í röð hlýtur Íslandsbanki Íslensku ánægjuvogina. Við munum halda áfram að bjóða trausta og framúrskarandi þjónustu og gera viðskiptavinum okkar kleift að sinna bankaviðskiptum sínum, hvar og hvenær sem er.

Sterkur vöxtur var í lánabókinni sem jókst um 12% á árinu og við sáum kröftuga aukningu í fyrirtækjalánum en kannanir hafa einmitt sýnt fram á forystu Íslandsbanka þegar kemur að ánægju með þjónustu til fyrirtækja.Við höfum markað okkur stöðu sem leiðandi aðili í sambankalánum auk þess sem fyrirtækjaráðgjöf og gjaldeyrismiðlun bankans áttu frábært ár og dótturfélag okkar Íslandssjóðir setti á laggirnar fyrsta innlenda græna skuldabréfasjóðinn.

Afkoma bankans og Íslandssjóða var ágæt á árinu og skilaði samstæðan hagnaði upp á 10,6 ma. kr. en erfiður rekstur annarra dótturfélaga dró heldur úr afkomunni. Fjármögnun bankans var vel heppnuð á árinu og er lausafjárstaðan sterk í bæði íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum, áhætta bankans er áfram hófleg og henni vel stýrt.

Undanfarin ár höfum við einblínt á að nútímavæða bankann og byggja upp ábyrga viðskipta- og áhættumenningu. Við ætlum að halda þeirri vegferð áfram á nýju ári með því að ráðast í stefnumótun sem við erum viss um að muni skila sér í enn betri banka til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Við fögnum útgáfu nýrrar hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út í lok síðasta árs sem staðfestir hve miklar umbætur hafa átt sér stað í íslensku bankakerfi á undanförnum árum.  Hvítbókin bendir einnig á þunga skattbyrði íslensks bankakerfis sem hefur fyrst og fremst bitnað á íslenskum neytendum og vonumst við til að sjá breytingar hvað þetta varðar.