*

laugardagur, 25. maí 2019
Innlent 17. nóvember 2018 13:09

Hagnaður jókst um 15%

Afkoma stóru bankanna þriggja á þriðja ársfjórðungi var á heildina litið betri en á sama tíma í fyrra.

Ástgeir Ólafsson
Aðsend mynd

S tóru viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, högnuðust um samtals 7 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi þessa árs en bankarnir hafa nú allir birt uppgjör fyrir tímabilið. Jókst hagnaður bankanna um 15% frá sama tímabili í fyrra. Mestur var hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi og var tæplega 3,8 milljarðar króna en dróst saman um 10% frá sama tíma í fyrra, hagnaður Íslandsbanka nam 2,1 milljörðum og jókst lítillega milli ára. Þá nam hagnaður Arion banka 1.149 milljónum á fjórðungnum en afkoman var 1.262 milljónum betri en á sama tímabili fyrra þegar bankinn skilaði 113 milljóna tapi.

Þriðji ársfjórðungur reyndist Arion banka erfiður annað árið í röð en hrein virðisbreyting bankans var neikvæð um tæplega 2,7 milljarða sem kemur að stórum hluta til af gjaldþroti flugfélagsins Primera air. Á sama tíma í fyrra var hrein virðisbreyting bankans neikvæð um 2.550 milljónir meðal annars vegna fjárfestinga í United Silicon.   Fyrir banka-, tekju- og fjársýsluskatt högnuðust bankarnir um 13,6 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi sem er 13% aukning frá sama tímabili í fyrra.

Samanlagður hagnaður bankanna þriggja á fyrstu 9 mánuðum ársins nam 30,8 milljörðum króna samanborið við 37,3 milljarða á sama tímabili í fyrra. Hagnaður Arion banka á fyrstu 9 mánuðum ársins nam 6.160 milljónum og lækkaði um 41% milli ára. Hagnaður Landsbankans nam 15,4 milljörðum króna og dróst saman um 9% milli ára. Hagnaður Íslandsbanka á fyrstu 9 mánuðum ársins nam rúmlega 9,2 milljörðum og dróst saman um 9% á milli ára. Samanlagður hagnaður bankanna á síðustu fjórum ársfjórðungum nemur 40,9 milljörðum samanborið við 47,4 milljarða á sama tímabili fyrir ári síðan.

Vaxtatekjur aukast milli ára 

Sem fyrr eru vaxtatekjur af útlánum, einkum til einstaklinga og fyrirtækja, stærsti tekjuliður bankanna þriggja. Útlán til einstaklinga og fyrirtækja standa fyrir 73% af heildareignum bankanna en hlutfallið er nær óbreytt frá öðrum ársfjórðungi þessa árs. Þá standa hreinar vaxtatekjur fyrir um  71% af rekstrartekjum bankanna þriggja. Hreinar vaxtatekjur námu samtals 26,1 milljarði króna samanborið við 23,6 milljarða á sama tíma í fyrra sem er aukning um 10,7%. Er þetta töluvert meiri vöxtur en á fyrstu sex mánuðum ársins þegar hreinar vaxtatekjur jukust um 1,3% frá sama tíma í fyrra.

Nokkur munur var þó á þróun vaxtatekna hjá bönkunum þremur. Hreinar vaxtatekjur Landsbankans námu 10,4 milljörðum króna á fjórðungnum og jukust um 16,6% frá sama tíma í fyrra. Hjá Íslandsbanka nam aukningin 11,4% en hreinar vaxtatekjur námu 8,3 milljörðum. Viðsnúningur varð í vaxtatekjum Arion banka sem höfðu dregist saman um 5,2% á fyrri helmingi ársins. Hreinar vaxtatekjur Arion námu rúmlega 7,4 milljörðum króna og jukust um 2,7% frá sama tímabili í fyrra.   Auknar vaxtatekjur milli ára skýrast meðal annars af því að verðbólga var hærri á þriðja ársfjórðungi þessa árs en í fyrra.

essa árs en í fyrra. Líkt og á fyrri helmingi ársins var aðra sögu að segja af þróun þóknunartekna bankanna en þær koma meðal annars til af greiðsluþjónustu, eignastýringu, fyrirtækjaráðgjöf og markaðsviðskiptum. Hreinar þóknunartekjur Arion banka jukust um 9,9% milli ára á þriðja ársfjórðungi og námu rúmlega 4,2 milljörðum króna. Þóknunartekjur Íslandsbanka námu tæplega 3 milljörðum króna og lækkuðu um 11,1% milli ára. Þá námu þóknunartekjur Landsbankans tæplega 2 milljörðum króna og lækkuðu um 10,8% milli ára. Sem fyrr má rekja lægri þóknunartekjur Landsbankans miðað við hina bankana til þess að ekkert kortafyrirtæki er í eigu bankans á meðan Íslandsbanki á   63,5% hlut í Borgun auk þess sem Arion banki á Valitor að fullu. Bankinn greindi þó frá því, samhliða uppgjöri þriðja ársfjórðungs, að viðræður væru hafnar við alþjóðlegan fjárfestingabanka til þess að koma að söluferli Valitor.

Hreinar tekjur af fjárfestingabankastarfsemi, eignastýringu og miðlun námu samtals rétt tæpum 3 milljörðum á síðasta ársfjórðungi og drógust saman um 6,7% milli ára. Munar þar mest um 427 milljóna samdrátt hjá Landsbankanum á meðan hreinar tekjur Arion banka af fyrrgreindri starfsemi jukust um 127 milljónir og um 84 milljónir hjá Íslandsbanka. Námu hreinar tekjur af starfseminni 1,2 milljörðum hjá Arion, 1.053 milljónum hjá Íslandsbanka og 747 milljónum hjá Landsbankanum. Tölur um hreinar tekjur af þessum starfsþáttum eru þó ekki fullkomnar þar sem mismunandi er eftir bönkum hve mikið kostnaður er sundurliðaður.

Samanlagt námu rekstartekjur bankanna þriggja 33,6 milljörðum króna og jukust um 7,8% milli ára. Rekstrartekjur Arion banka námu 13,7 milljörðum og jukust um 18,3% milli ára. Skýrist aukningin að hluta til af því að fjárfestingatekjur voru jákvæðar um 582 milljónir á fjórðungnum en voru neikvæðar um 734 milljónir á sama tíma í fyrra. Rekstrartekjur Landsbankans námu rúmlega 12 milljörðum og drógust lítillega saman milli ára á meðan rekstrartekjur Íslandsbanka námu tæplega 10,9 milljörðum og jukust um 8,3% frá sama tíma í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

 

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim