JP Morgan Chase, stærsti eignabanki Bandaríkjanna, hefur birt uppgjör fyrir fjórða ársfjórðung. Þar kemur fram að hagnaður bankans hafi dregist saman um nær 6,6% á fjórðungnum. CNBC greinir frá þessu.

Þar kemur fram að aukinn dómsmála- og lögfræðikostnaður hafi mikil áhrif á afkomu bankans en hann nam næstum einum milljarði Bandaríkjadala. Bankinn hefur jafnframt lagt meiri fjármuni til hliðar til þess að mæta slíkum kostnaði í framtíðinni.

En það er hins vegar ekki þar með sagt að bankinn skili slæmu uppgjöri. Hagnaður bankans á tímabilinu nam þannig næstum fimm milljörðum dala, en það jafngildir um 650 milljörðum íslenskra króna. Á sama tímabili ári fyrr nam hann 5,28 milljörðum dala.