Hagnaður Landsbankans á árinu 2016 nam 16,6 milljörðum króna, eftir skatta, samanborið við 36,5 milljarða króna á árinu 2015. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 6,6% á árinu 2016, samanborið við 14,8% árið 2015. Hreinar vaxtatekjur voru 34,7 milljarðar króna og hreinar þjónustutekjur námu 7,8 milljörðum króna. Aðrar rekstrartekjur námu 6,1 milljarði króna. Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 318 milljónir króna. Rekstrarkostnaður var 23,5 milljarðar króna. Reiknaðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, eru 9,2 milljarðar króna í uppgjöri fyrir 2016 samanborið við 13,1 milljarð króna árið 2015.

„Útlán jukust um 5% milli ára á meðan efnahagsreikningurinn minnkaði innan við 1%. Nú ber hlutfallslega stærri hluti eigna Landsbankans vexti, sem skilar sér í auknum vaxtatekjum, en hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 2,3 milljarða króna milli ára. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 14% á milli ára. Kemur það einkum til vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu auk breytinga á kortamarkaði, sem skila auknum þjónustutekjum, en á sama tíma eykst kostnaður bankans vegna fjármögnunar kortaviðskipta,“ segir í fréttatilkynningu frá Landsbankanum.

Einnig er tekið fram að virðisrýrnun útlána hjá Landsbankanum nam 318 milljónum króna og er það mikil breyting frá fyrra ári en þá voru virðisbreytingar útlána jákvæðar um 18,2 milljarða. Laun og annar rekstrarkostnaður hjá bankanum lækkaði um 1% frá árinu 2015. Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 2% en annar rekstrarkostnaður lækkaði um 5%.

Eigið fé: 251,2 milljarðar

„Heildareignir Landsbankans lækkuðu um 7,5 milljarða á milli ára og í árslok 2016 námu eignir bankans alls 1.111 milljörðum króna. Útlán jukust um 42 milljarða króna en aukningin er að stærstum hluta vegna aukinna íbúðalána til einstaklinga, ásamt auknum lánveitingum til fyrirtækja. Vanskilahlutfall heldur áfram að lækka en það var 1,5% í lok árs 2016, samanborið við 1,8% í lok árs 2015.  Í árslok 2016 voru innlán frá viðskiptavinum 590 milljarðar króna, samanborið við 559 milljarða í árslok 2015.
Eigið fé Landsbankans í árslok 2016 var 251,2 milljarðar króna samanborið við 264,5 milljarða króna í árslok 2015. Á árinu 2016 greiddi Landsbankinn 28,5 milljarða króna í arð til hluthafa.

Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2016 var 30,2% og lækkaði um 0,2 prósentustig frá fyrra ári. Fjármálaeftirlitið gerir 22,1% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans,“ segir í fréttatilkynningunni.

Lagt verður til við aðalfund  Landsbankans sem verður haldinn þann 22. mars 2017 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2016 sem nemur 0,55 krónum á hlut, eða samtals um 13 milljörðum króna. Arðgreiðslan nemur um 78% af hagnaði ársins 2016. Til viðbótar hyggst bankaráð leggja fram tillögu um sérstaka arðgreiðslu á aðalfundi, en fjárhæð hennar verður tilgreind í tillögum fyrir aðalfund.

Fjórði ársfjórðungur: Hagnaður 243 milljónir

Á fjórða ársfjórðungi dróst hagnaður Landsbankans talsvert saman, ef tekið er mið af sama tíma í fyrra. Hagnaður Landsbankans á tímabilinu nam 243 milljónum árið 2016. Á sama tíma í fyrra nam hann 12 milljörðum króna.

Arðsemi eiginfjár lækkar einnig talsvert milli tímabila og var 0,4% á fjórða ársfjórðungi samanborið við 18,6% arðsemi á sama ársfjórðungi árið á undan. Virðisbreyting útlána var neikvæð um 4,7 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi árið 2016 - en var jákvð um 5,9 milljarða á fjórða ársfjórðungi 2016.

Markaðshluteildin aldrei stærri

Hreiðar Bjarnason, starfandi bankastjóri Landsbankans, segir: „Landsbankinn er sem fyrr stærsta fjármálafyrirtæki landsins og fjárhagsstaða bankans er afar traust. Grunnrekstur Landsbankans gekk vel á árinu, hreinar vaxta- og þóknunartekjur jukust töluvert frá fyrra ári, en á sama tíma hefur rekstrarkostnaður bankans lækkað. Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur aldrei mælst hærri og staða bankans á fyrirtækjamarkaði og á fjármálamörkuðum er áfram sterk. Þá sýna mælingar að ánægja viðskiptavina bankans jókst umtalsvert á árinu, sem er okkur afar mikilvægt, enda leggur bankinn mikla áherslu á að veita viðskiptavinum sínum um allt land fyrirmyndarþjónustu á samkeppnishæfum kjörum.

Annað árið í röð hækkaði lánshæfismat Landsbankans hjá Standard & Poor’s og er nú BBB og er einkunn Landsbankans áfram með jákvæðar horfur eftir hækkunina. Þetta er ánægjuleg viðurkenning á því frábæra starfi sem unnið hefur verið í bankanum mörg undanfarin ár. Landsbankinn hefur lengi lagt áherslu á að rekstur bankans verði arðsamur þegar stórum og óvenjulegum liðum sleppir. Sú stefna hefur skilað árangri og bankinn mun halda áfram á sömu braut.“