Landsbankinn hagnaðist um 11,6 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins, en það er 8,7% lækkun frá sama tímabili á síðasta ári. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 9,9% á ársgrundvelli samanborið við 10,6% á sama tímabili 2017. Rekstrarkostnaður stóð nánast í stað á milli tímabila.

Hreinar vaxtatekjur voru 19,5 milljarðar króna og hækkuðu um 7,2% á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 3,9 milljörðum króna samanborið við 4,4 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Virðisbreytingar útlána voru jákvæðar um 1,7 milljarð króna samanborið við 1,3 milljarð króna á sama tímabili árið áður. Vanskilahlutfall var 0,6% á fyrri helmingi ársins 2018 samanborið við 1,1% á sama tímabili 2017.

Rekstrartekjur bankans á fyrri helmingi ársins námu 29,0 milljörðum króna samanborið við 29,3 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 3,9 milljörðum króna samanborið við 5,4 milljarða króna sama tímabil árið áður og skýrist lækkunin aðallega af óhagstæðum aðstæðum á verðbréfamörkuðum.

Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,7% á fyrri helmingi ársins 2018 en var 2,5% á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður bankans nam 12,2 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins 2018 sem er hækkun um 0,9% miðað við sama tímabil árið 2017. Þar af var launakostnaður 7,5 milljarðar króna samanborið við 7,1 milljarð króna á sama tímabili árið 2017, en þessi hækkun um 5,4% skýrist einkum af samningsbundnum launahækkunum. Annar rekstrarkostnaður lækkaði um 5,7% frá sama tímabili árið 2017 og var 4,6 milljarðar króna, samanborið við 4,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Eigið fé Landsbankans var 232,1 milljarðar króna 30. júní sl. og eiginfjárhlutfallið var 24,1%.

„Afkoma Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2018 var góð og uppgjörið sýnir að rekstur bankans er traustur, hvort sem litið er á tekjur, útlán eða rekstrarkostnað.“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.