Bandaríski tölvuframleiðandinn Microsoft hagnaðist um 6,5 milljarða Bandaríkjadollara á fjórða ársfjórðungi, sem endaði 30. júní 2017 hjá fyrirtækinu, eða því sem nemur um 680,9 milljörðum íslenskra króna. Hagnaðurinn meira en tvöfaldast milli ára og var vel umfram væntingar greiningaraðila, en á sama tímabili í fyrra hagnaðist Microsoft um 3,1 milljarð dollara.

Aukningin í hagnaði Microsoft er rakin til nýsköpunar og vaxtar í Microsoft Cloud hugbúnaðarlausninni, að því er segir í afkomutilkynningu frá Microsoft frá því í gær.

Tekjur Microsoft á ársfjórðungnum námu 23,3 milljörðum dollara og jukust um 13% á ársfjórðungnum. Tekjuvöxturinn skýrist að mestu leyti af tekjuaukningu Microsoft Azure verkvangans, en þær jukust um 97%. Tekjur vegna Microsoft Cloud jukust um 15% og námu 7,4 milljörðum. Tekjur vegna framleiðslu hefðbundinna PC-tölva námu 8,8 milljörðum en héldu þó áfram að dragast saman og minnkuðu um 2% milli ársfjórðunga.

Handbært fé Microsoft nemur 133 milljörðum dollara en var 126 milljarðar á þriðja ársfjórðungi. Fyrirtækið greiddi 4,6 milljarða dollara eða jafnvirði tæplega 482 milljarða króna í arð og enduraup á eigin bréfum.

Gengi hlutabréfa í Microsoft Corporation hafa hækkað um tæplega 18% frá áramótum.