Landsbankinn hagnaðist um 3,3 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2016. Það er lækkun milli ára um ríflega 3,1 milljarð króna, en á sama tíma í fyrra var hagnaður bankans 6,4 milljarðar króna. Steinþór Pálsson segir afkomuna hafa verið viðundandi. Þetta kemur fram í ársfjórðungsreikningi bankans sem birtur var í dag.

Rekstrartekjur bankans námu þá 11,5 milljörðum króna og drógust einnig saman. Þær námu 14,7 milljörðum á fyrsta fjórðungi 2015. Þá hækkaði launakostnaður, eins og við mátti búast út frá nýjum kjarasamningum, en vegna þess að annar rekstrarkostnaður lækkaði varð 0,5% heildarlækkun á rekstrarkostnaði bankans miðað við tímabilið árinu áður.

Vaxtamunur eigna og skulda nam 1,9% á fjórðungnum og er 0,1 prósentustigi lægra en árið áður. Þjónustutekjur hækkuðu þá vegna vaxandi viðskipta við bankann. Vanskilahlutfall hefur þá farið lækkandi milli ára og er nú 1,7% miðað við 2,3% á fyrsta fjórðungi síðasta árs. Kostnaðarhlutfall hækkaði, en bankinn telur lægri verðbréfatekjur skýra þá hækkun. Það var 55,8% og því 7,8 prósentustigum hærra en árið á undan.

Eignir bankans námu 1.106 milljörðum króna í heild sinni. Þar af voru skuldir ríflega 838 milljarðar króna, en þaðan af eru skortsölustöður og afleiður fimm milljarðar og innlán viðskiptavina ríflega 545 milljarðar króna. Eigið fé bankans var þá 267,8 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall bankans er þá 31,2%. Á árinu verður greiddur 28,5 milljarða króna arður til eina eiganda bankans, íslenska ríkisins.

Haft er eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra, að afkoma fjórðungsins sé viðunandi:

„Afkoma Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi er viðunandi. Af hálfu bankans hefur lengi verið rætt um að vægi einskiptisliða, svo sem jákvæðra virðisbreytinga útlána, færi minnkandi og að ekki væri reiknað með áhrifum einskiptisliða til framtíðar. Sú hefur orðið raunin og uppgjörið nú lýsir reglubundnum rekstri bankans, án verulegra áhrifa frá óreglulegum liðum.“