Svissneski matvælarisinn Nestlé stefnir á aukinn niðurskurð eftir að nýbirtur ársreikningur félagsins sýndi að hagnaður félagsins féll úr 9,1 milljarði svissneskra franka árið 2015 niður í 8,5 milljarða í fyrra, eða sem nemur 942 milljörðum íslenskra króna.

Greinendur höfðu búist við að hagnaðurinn myndi aukast í 9,59 milljarða svissneskra franka. Nestlé framleiðir mörg þekkt vörumerki, og má þar á meðal annars nefna KitKat, Nescafé, dýrafóður og fleira.

Söluaukning fyrirtækisins minnkaði úr 4,2% árið 2015 niður í 3,2%, vegna minnkandi eftirspurnar í nýmarkaðslöndum og lítillar verðbólgu í flestum öðrum mörkuðum fyrirtækisins.

Hefur fyrirtækið í kjölfarið minnkað væntingar um söluaukningu niður í á milli 2 til 4% fyrir þetta ár, sem er mikil lækkun frá fyrri markmiðum um 5-6% aukningu.

Mark Schneider, forstjóri fyrirtækisins, sem tók við stöðunni í janúar sagði niðurstöðurnar vera góðar ef miðað er við matvælaiðnaðinn almennt, en við lægri mörk væntinga fyrirtækisins.