Alda Credit Fund slhf., hagnaðist um 103,7 milljónir króna á síðasta ári, sem er aukning um 23,3% frá fyrra ári þegar hagnaður félagsins nam 84,1 milljón króna. Alda er í rekstri Júpiters, sjóðstýringarfélags í eigu Kviku banka, en fjárfestingarsjóðurinn er að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóðanna og annarra fagfjárfesta.

Tekjur sjóðsins námu 150,8 milljónum króna sem er aukning um 12,8% frá fyrra ári þegar tekjurnar námu 133,7 milljónum króna. Rekstrargjöldin drógust hins vegar saman, úr 49,5 milljónum í 47 milljónir, eða um 5,3%. Eignir sjóðsins nema tælega rétt tæplega 8 milljörðum, sem er aukning um 2,2% frá fyrra ári þegar eignirnar voru rétt rúmlega 7,8 milljarðar.

Þar af nemur eigið fé sjóðsins 1,8 milljörðum, sem er aukning frá 1,7 milljörðum frá árinu 2017, eða um 6,1%. Handbært fé félagsins dróst saman á milli ára, úr 236,5 milljónum í 139,8 milljónir króna, eða um 40,9%.

Helstu hluthafar:

  • 17,4% - Gildi lífeyrissjóður
  • 10,6% - Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A - deild
  • 10,0% - Stafir lífeyrissjóður
  • 9,9% - Stapi lífeyrissjóður
  • 6,6% - Festa lífeyrissjóður
  • 6,6% - Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga
  • 6,6% - Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda
  • 6,6% - Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar
  • 5,9% - Lífsverk lífeyrisjóður
  • 4,0% - Sjóvá-Almennar tryggingar hf.
  • 15,9% - aðrir hluthafar, alls 12 talsins