Hagnaður Ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar hf. eftir skatta fyrir fjárhagsárið 01.03. 2016 – 28.02. 2017 jókst um 18% milli ára, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Velta jókst um 16% á sama tímabili. Þá var EBITDA fyrirtækisins rétt um tveir milljarðar króna. Hagnaður Ölgerðarinnar nam um  3,3% af veltu og nettó vaxtaberandi skuldir voru tæpir 7 milljarðar króna. Eigið fé Ölgerðarinnar var um 2,8 milljarðar króna eða um 19% eiginfjárhlutfall.

„Við er afar stolt af þessum árangri á nýliðinu rekstrarári. Við erum með ársveltu upp á 24 milljarða króna og jukum veltu um 16% milli ára. Styrking íslensku krónunnar skilaði sér til viðskiptavina okkar, enda lækkuðum við verð innfluttra vara fjórum sinnum á árinu en náðum samt að auka hagnaðinn. Þennan góða árangur má fyrst og fremst rekja til aukinnar markaðshlutdeildar og framúrskarandi starfsfólks,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.

„Við höfum undirritað samning um kaup á fasteignunum að Grjóthálsi 7 – 11, þar sem meginstarfsemi okkar fer fram. Samhliða því hækkuðum við hlutafé um 1,6 milljarða króna og lækkuðum m.a. skuldir rekstrarfélagsins,“ segir Andri Þór. Starfsmannafjöldi Ölgerðarinnar jókst um 10% milli ára og voru ársverk um 420 á árinu,“ bætir hann við.

Nýlega var gengið frá sölu á 69% hlut í Ölgerðinni en fyrir þeim kaupum fóru framtakssjóðirnir Horn III slhf, Akur fjárfestingar slhf auk einkafjárfesta.

Kaupa Grjóthálsinn

Ölgerðin hefur jafnframt keypt fasteignir að Grjóthálsi 7 til 11 þar sem að meginstarfsemi Ölgerðarinnar fer fram. Seljandi er Nitur ehf. Fasteignirnar eru 20 þúsund fermetrar. Kaupsamningur verður gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Kaupverð verður greitt annars vegar með afhendingu á hlutum í kaupanda og hins vegar með reiðufé. Ráðgjafi Ölgerðarinnar í viðskiptunum var Íslandsbanki.