*

laugardagur, 25. maí 2019
Innlent 14. mars 2019 15:03

Hagnaður OR dróst saman um 10 milljarða

Forstjórinn segist kynna ársreikning félagsins með stolti, en hagnaðurinn lækkaði um 63%, úr 16 í 6 milljarða milli ára.

Ritstjórn
Bjarni Bjarnason er forstjóri OR
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur dróst saman 62,8% á milli áranna 2017 og 2018, eða úr rétt rúmlega 16 milljörðum í rétt tæplega 6 milljarða, á sama tíma og rekstrartekjur jukust um 5,2% frá árinu 2017, eða úr 43,7 milljörðum í 45,9 milljarða.

Rekstrarkostnaður jókst á sama tíma um 0,1%, eða úr 17.285 milljónum í 17.299 milljónir en rekstrarhagnaðurinn óx milli áranna 2017 og 2018 um rúman einn milljarð króna, eða úr 17,32 milljörðum í 18,36 milljarða.

Vaxtatekjur félagsins dróugst saman um helming, eða úr 651 milljón í 381 milljón á sama tíma og vaxtagjöldin jukust úr 5,2 milljöðrum í 6,9 milljarða. Mestu munar hins vegar um liðinn Aðrar tekjur og önnur gjöld af fjáreignum og fjárskuldum, sem fóru úr 8,6 milljörðum í plús í 7,2 milljörðum í mínus.

Samkvæmt skýringum í ársreikningum þá munar þar mest um gangvirðisbreytingar innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum, sem fóru úr 12,5 milljarða jákvæðri tölu árið 2017 í 7,5 milljarða neikvæða tölu í ár, en í tilkynningu frá félaginu segir að lækkun álverðs hafi lækkað og þar með ráðið mestu um óhagstæðar stærðir í ársreikningnum.

Ársreikningur samstæðu OR var samþykktur af stjórn í dag.  afnframt samþykkti stjórn að leggja til við aðalfund OR að eigendur fyrirtækisins – Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð – fái greiddan arð sem nemur 1.500 milljónum króna vegna rekstrarársins.

Meira en 100 milljón rúmmetrar af heitu vatni

Kalt og úrkomusamt ár á helsta starfssvæði Orkuveitu Reykjavíkur hafði þau áhrif að vinnsla á köldu vatni, sem meðal annars er nýtt til að vökva garða, minnkaði en í fyrsta skipti fór heitavatnsvinnsla yfir 100 milljón rúmmetra. Framundan eru talsverðar fjárfestingar til að mæta þörf fyrir meira vatn til húshitunar og til að tryggja heilnæmi neysluvatns úr Heiðmörk.

Uppbygging nýs húsnæðis er mikil, ferðamönnum fjölgaði og viðskiptavinum á samkeppnismörkuðum sömuleiðis. Þá er sífellt betra jafnvægi að nást milli orkuvinnslu í Hellisheiðarvirkjun og afkasta jarðhitasvæðanna sem hún nýtir og jókst orkuvinnsla þar á árinu.

Aukin vinnsla og aukin eftirspurn eftir þjónustu fyrirtækjanna innan OR-samstæðunnar – Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur – skilar vaxandi tekjum milli ára. Álverð lækkaði og ræður það mestu um að reiknaðar stærðir ársreikningsins voru óhagstæðar.

Engu að síður var heildarniðurstaða ársins jákvæð sem nemur tæpum sex milljörðum króna. Það er veruleg lækkun frá fyrra ári þegar þróun álverðs var hagstæð segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

Forstjórinn segist leggja ársreikninginn fram með stolti

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR segir að enn á ný sjáist að traust tök á rekstri Orkuveitusamstæðunnar skili fyrirtækjunum góðri afkomu. „Sú menning sem hér hefur skapast – að velta fyrir sér hverri krónu áður en henni er ráðstafað – er á meðal þeirra verðmæta sem Orkuveita Reykjavíkur býr að,“ segir Bjarni sem segir hins vegar að ytri skilyrði breytist án þess að við þau sé ráðið.

„Markviss vinna að áhættuvörnum leyfir okkur þó að leggja þennan ársreikning fyrir eigendur fyrirtækisins með nokkru stolti. Hér eftir sem hingað til munu viðskiptavinir njóta þess þegar vel tekst til með reksturinn.

Samkvæmt ákvörðun þeirra sveitarfélaga sem eiga Orkuveitu Reykjavíkur munu viðskiptavinir njóta ábatans af rekstrinum og verð á margri okkar þjónustu hefur lækkað ítrekað eða staðið í stað síðustu misseri. Ef okkur lánast að viðhalda þeirri skörpu sýn sem við höfum haft á rekstrarútgjöldin verður sú þróun, að öðru jöfnu, viðvarandi.

Uppgjör okkar fyrir árið 2018 snýst um fleira en fjárhaginn. Við leggjum spilin á borðið varðandi ábyrgð okkar í samfélaginu og umhverfinu í Ársskýrslu OR 2018. Tilgangur skýrslunnar er ekki síst að vera grundvöllur umræðu um á hvaða sviðum við þurfum að standa okkur betur.“

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim