Aðalfundur þekkingarfyrirtækisins ORF Líftækni var haldinn í gær og ársreikningur fyrir árið 2018 kynntur fyrir hluthöfum. Heildartekjur fyrirtækisins jukust um 29% á milli ára og námu 1.595 m.kr. Rekstrarhagnaður (EBITDA) jókst um 62% og nam 341 m.kr. Hagnaður ársins ríflega fjórfaldaðist á milli ára og nam 161 m.kr. árið 2018 samanborið við 38 m.kr. árið 2017.

„Síðasta ár markar ákveðin vatnaskil í afkomu fyrirtækisins. Við erum búin að skila bókhaldslegum hagnaði frá árinu 2014, en nú náum við kröftugi stökki upp á við í afkomu félagsins í gegnum hagfellda samsetningu söluvaxtar og aukna stærðarhagkvæmni í rekstrinum,“ segir Frosti Ólafsson, forstjóri ORF Líftækni, í fréttatilkynningu.

„Við höfum fjárfest mikið í markaðsstarfi, þróun og innviðum á undanförnum misserum og teljum okkur því vel í stakk búin til að ná áframhaldandi tekjuvexti á næstu árum. ORF Líftækni hefur alltaf staðið framarlega í vísindalegu samhengi. Próteinkerfi fyrirtækisins er einstakt á heimsvísu og þær vörur sem við framleiðum eru í fremsta flokki hvað gæði og virkni varðar,” segir Frosti. „Á undanförnum árum hefur fyrirtækið orðið stöðugt burðugra í viðskiptalegu samhengi og nú erum við farin að skipa okkur sess meðal fremstu aðila í útflutningi á íslensku hugviti. Fjárhagsstaða ORF hefur styrskt til muna undanfarin misseri og framgangur þróunarverkefna hefur verið sterkur,” segir Frosti.

Í tilkynningunni er jafnframt greint frá því að helsti tekjugrunnur ORF Líftækni sé BIOEFFECT húðvörulínan, sem hafi notið vaxandi velgengni á erlendum mörkuðum undanfarin ár. Meðal helstu áfanga í rekstri BIOEFFECT megi nefna innreið vörumerkisins á sölusíðu Sephora sem sé stærsti snyrtivörusmásali heims, tvær nýjar vörur sem hafi verið bætt í vörulínu BIOEFFECT, OSA Water Mist og Micellar Cleansing Water, samstarf sem stofnað hafi verið til með leiðandi smásöluaðilum á fríverslunarmarkaði í Asíu og yfirtöku ORF á heildsölu- og dreifingu BIOEFFECT vörumerkisins innan Bretlandsmarkar. Samhliða uppbyggingu BIOEFFECT vörumerkisins hafi ORF fjárfest í framgangi annarra þróunarverkefna sem byggi á próteinframleiðslukerfi fyrirtækisins. Þessum verkefnum sé ætlað að fjölga tekjustraumum félagsins til lengri tíma litið.

„ORF Líftækni ætlar að halda áfram að byggja upp fjölbreyttan útflutning frá Íslandi,“ segir Frosti. „Það er mikilvægt að hlúa vel að þessum hluta hagkerfisins til að ungu fólki á Íslandi standi til boða störf hjá alþjóðlegum þekkingarfyrirtækjum og hér geti lífskjör verið áfram með besta móti. Ísland hefur reynst verðmætur hornsteinn í ímyndartengdu samhengi fyrir ORF en rekstraraðstæður hérlendis hafa verið krefjandi á ýmsan hátt. Við hvetjum því stjórnvöld til að huga sérstaklega að rekstrarumhverfi fyrirtækja þannig að alþjóðlegur þekkingariðnaður geti blómstrað á Íslandi,“ segir Frosti.