*

laugardagur, 20. apríl 2019
Innlent 6. febrúar 2018 08:43

Hagnaður Össurar jókst um 64%

Á 4. ársfjórðungi jókst hagnaður fyrirtækisins úr 14 upp í 23 milljónir dala milli 2016 og 2017 en 13% fyrir allt árið.

Ritstjórn
Eva Björk Ægisdóttir

Hagnaður stoðtækjaframleiðandans Össurar á fjórða ársfjórðungi nam 23 milljónum Bandaríkjadala, eða sem jafngildir 2,4 milljörðum íslenskra króna. Það samsvarar 15% af sölu fyrirtækisins.

Á sama tíma fyrir ári nam hagnaðurinn 14 milljónum dala, svo aukning hagnaðar á milli ára nemur 64%. Hagnaðurinn fyrir allt árið nam svo 58 milljónum dala, sem er aukning um 7 milljónir dala frá árinu áður, eða sem nemur um 13%.

Salan jókst um 7% á 4. ársfjórðungi

Sala í fjórða ársfjórðungi 2017 nam 154 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 16 milljörðum íslenskra króna, sem samsvarar 7% innri vexti. Stoðtækjarekstur óx um 11% með áframhaldandi góðu gengi í hátæknivörum. Innri vöxtur í spelkum og stuðningsvörum var 3%.

EBITDA óx um 15% í staðbundinni mynt í fjórða ársfjórðungi 2017 og nam 30 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 3,1 milljarði íslenskra króna. Það er um 20% af sölu samanborið við 19% af sölu í fjórða ársfjórðungi 2016. Góður söluvöxtur hafði jákvæð áhrif á arðsemi í fjórðungnum segir í fréttatilkynningu.

Heildarsalan á árinu nam 61 milljarði króna

Sala á árinu 2017 nam 569 milljónum Bandaríkjadala, eða 61 milljarði íslenskra króna, sem samsvarar 8% vexti í staðbundinni mynt og 5% innri vexti. Stoðtækjasala óx um 9% og yfir áætluðum markaðsvexti með góðu gengi í hátæknivörum á borð við gervigreindarhnéð RHEO KNEE®. Innri vöxtur í spelkum og stuðningsvörum var 1%.

EBITDA að teknu tilliti til einskiptisliða óx um 10% í staðbundinni mynt og nam 103 milljónum Bandaríkjadala, það er 11 milljörðum íslenskra króna, eða 18% af sölu. Góður söluvöxtur og samlegðaráhrif leiddu til þess að EBITDA óx hraðar en sala.

Hagnaður óx um 13% og nam 58 milljónum Bandaríkjadala, eða um 6,2 milljörðum íslenskra króna. Það gerur um 10% af sölu.

Greiða milljarð út í arð og færa niður hlutafé

Stjórn félagsins mun leggja til við aðalfund að greiddur verði arður sem nemur DKK 0,13 á hlut fyrir árið 2017, sem er hækkun um 8% á hlut frá fyrra ári. Það samsvarar um 56,8 milljónum danskra króna eða  957 milljónum íslenskra króna. Stjórn félagsins mun jafnframt leggja til við aðalfund að hlutafé félagsins verði lækkað með niðurfellingu 6,354,662 eigin hluta.

Áætlun fyrir árið 2018 er 4-5% innri vöxtur, um það bil 19% EBITDA framlegð að teknu tilliti til einskiptisliða, og um 4% fjárfestingarhlutfall og virkt skattahlutfall á bilinu 23-24%. Á árinu dró fyrirtækis sig af íslenska hlutabréfamarkaðnum og er það nú einungis skráð í dönsku kauphöllina, eftir að hafa verið á báðum stöðum í fjöldamörg ár.

Hátæknivörur seldust umfram áætlun

“Söluvöxtur á árinu var einna helst drifinn áfram af stoðtækjum með sölu umfram áætlaðan markaðsvöxt sem og hátæknivörum okkar í bæði stoðtækjum og spelkum og stuðningsvörum,“ segir Jón Sigurðsson forstjóri Össurar.

„Við jukum fjárfestingar í rannsóknarverkefnum fyrir hátæknivörur á árinu, þar á meðal spelkur með gervigreind, en engu að síður óx rekstrarhagnaður okkar hraðar en sala vegna aukinnar sölu á hátæknivörum, samlegðaráhrifa og stærðarhagkvæmni.”

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim