Fasteignafélagið Reginn hagnaðist um 1.342 m.kr. á þriðja ársfjórðungi en félagið birti árshlutareikning þriðja ársfjórðungs í dag. Hagnaður á þriðja ársfjórðungi síðasta árs nam 707 milljónum. Rekstrartekjur voru 1.833 m.kr. en voru 1.717 m.kr. á sama tímabili í fyrra og leigutekjur uxu um 6% á milli ára. Rekstrarkostnaður fasteigna nam 539 m.kr. á þriðja ársfjórðungi en 457 m.kr. í fyrra. Matsbreyting á fyrstu níu mánuðum ársins var 2.345 m.kr.

Rekstrartekjur á fyrstu níu mánuðum ársins voru 5.165 m.kr. samanborið við 4.939 m.kr. á síðasta ári. Hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins nemur því 2.854 m.kr. sem er aukning um 145 m.kr. frá fyrra ári. Hagnaður á hlut fyrir fyrstu níu mánuði ársins er því 1,83 en var 1,79 fyrir sama tímabil í fyrra. EBITDA félagsins var 3.288 m.kr. og er nánast hin sama og árið 2016.

Heildareignir félagsins námu 92.894 m.kr. við lok þriðja ársfjórðungs 2017 en við lok árs 2016 voru eignir félagsins 83.028 m.kr. Eignir félagsins hafa því aukist um tæpa tíu milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins. Eigið fé félagsins nemur 33.717 m.kr. samkvæmt árshlutauppgjörinu en við lok árs í fyrra var eigið fé 29.341 m.kr.

Í tilkynningu segir að umbreyting á Smáralind hafi miklar áhrif á tekjur og afkomu félagsins heildar áhrif á tekjur félagsins verði 2% lækkun tekna á árinu 2017. „Eins og áður hefur verið kynnt þá hefur umbreyting á Smáralind haft mikil áhrif á tekjur og afkomu félagsins. Nú sér fyrir endann á því verkefni og jákvæð áhrif nýrra leigutaka eru að koma í ljós. Af því tilefni, sem og þeim miklum breytingum á eignasafni sem eru fram undan, þá hefur rekstrarspá fyrir árin 2017 – 2020 verið endurskoðuð. Gert er ráð fyrir að heildar áhrif á Reginn verði rúmlega 2% lækkun tekna á árinu 2017 og verði tekjur ársins því um 6.630 m.kr. Hins vegar er gert ráð fyrir að tekjur áranna 2018 og 2019 hækki umfram fyrri spár og verði árleg hækkun um 900 m.kr. Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri séu góðar. Spennandi tímar eru fram undan í verslun og þjónustu á Íslandi með nýjum og breyttum áherslum.“