Fasteignafélagið Reitir hf. hagnaðist um 2.692 milljónir króna á fyrri helmingi ársins 2017 samanborið við 715 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra. Jókst hagnaður félagsins því um 1.977 milljónir á milli ára. Stór hluti hagnaðaraukningarinnar skýrist af því að matsbreyting fjárfestingareigna á tímabilinu nam 1.872 milljónum til hækkunar samanborið við 109 milljóna lækkun á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi 2017 nam 1.217 milljónum króna samanborið við 204 milljóna tap á sama tímabili í fyrra.

Leigutekjur á fyrri árshelmings 2017 námu 5.282 milljónum samanborið við 4.803 milljónir á sama tímabili árið 2016. Vöxtur tekna er því 10% og er aðallega drifinn áfram af stækkun eignasafns fyrirtækisins.

Nýtingarhlutfall fyrri árshelmings var 96,1% samanborið við 96,7% á sama tímabili árið áður. Breyting á nýtingu er aðallega tilkomin vegna leigutakaskipta í norðurenda Kringlu, og áhrif þessa eiga eftir að koma skýrar fram á seinni hluta ársins að því er segir í tilkynningu frá Reitum.

Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna nam 1.388 milljónum á tímabilinu samanborið við 1.198 milljónir á sama tímabili árið 2016 og vex um 15,9% milli ára. Nær öll aukningin er tilkomin vegna hærri fasteignagjalda.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og fjármagnsliði nam þannig 3.603 milljónum á tímabilinu samanborið við 3.326 milljónir á sama tímabili árið áður og vex um 8,3% milli ára.

Virði fjárfestingareigna nam 130,5 milljörðum í lok tímabilsins samanborið við 125,7 milljarða í lok sama tímabils í fyrra. Kaup á húsnæði Hótel Öldu við Laugaveg 66-70 á fyrsta ársfjórðungi hefur þar vægi auk matsbreytingar á fyrri árshelmingi. Á sama tíma námu vaxtarberandi skuldir 78,8 milljörðum samanborið við 76,2 milljarða árið 2016.

Eigið fé nam 46.843 milljónum í lok fyrri árshelmings og jókst um 687 milljónir frá sama tíma í fyrra. Eiginfjárhlutfall var 33,9% miðað við 34,4% í lok júní 2016.

Breyttar horfur fyrir árið 2017

Stjórnendur Reita gera ráð fyrir lítillega breyttum afkomuhorfum fyrir árið 2017 sem áður hafa verið kynntar. Áætlað er að tekjur ársins 2017 verði óbreyttar á bilinu 10.650-10.750 milljónir,  en nú er áætlað að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu verði á bilinu 7.250-7.350 milljónir miðað við 7.350-7.450 áður að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

Breytingin er vegna nauðsynlegra viðhaldsverkefna sem ekki var gert ráð fyrir í áætlunum ársins auk þess sem væntingar um lækkun á fasteignagjöldum í Kringlu virðast ekki ætla að ganga eftir á árinu.

Horfur ársins taka mið af af eignasafni félagsins eins og það stendur í dag. Væntingar stjórnenda standa til þess að viðbætur í eignasafnið á árinu nemi 8-10 milljörðum kr. en af þeim hefur félagið þegar fjárfest fyrir rúma 4 milljarða króna.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins segir Guðjón Auðunsson, forstjóri félagsins:

„Rekstur Reita á fyrstu sex mánuðum ársins er í samræmi við væntingar stjórnenda þess.

Reitir keyptu nýverið atvinnusvæði úr landi Blikastaða, sem er í Mosfellsbæ við sveitarfélagamörk Reykjavíkur. Svæðið er um 15 hektarar og áætlað er að byggt verði þar um 75 – 110 þúsund fermetrar af atvinnuhúsnæði á komandi árum. Kaupin skapa þannig m.a. tækifæri til að þróa sérhannað atvinnuhúsnæði fyrir viðskiptavini félagsins. Heildarfjárfesting Reita á svæðinu verður veruleg á þessu tímabili en hugsanlega verður hluti landsins seldur byggingaraðilum eða fyrirtækjum beint.

Saga Reita nær aftur til ársins 1987 þegar Kringlan var reist. Reitir fagna því um þessar mundir 30 ára afmæli. Á þremur áratugum hefur eignasafnið breyst, stækkað og þróast á meðan við höfum notið árangursríks samstarfs með góðum hópi leigutaka og samstarfsaðila. Við hlökkum til að fagna afmælinu með viðskiptavinum, fjárfestum og samstarfsaðilum í haust.“