Hagnaður fjarskiptafélagsins Síminn á fyrsta ársfjórðungi nam 774 milljónum króna borið saman við 310 milljónir á sama tímabili árið 2016. Hagnaður fjarskiptafélagsins jókst því um tæplega 150% milli ára. Þetta kemur fram í nýju árshlutauppgjöri fyrirtækisins, sem hægt er að nálgast hér .

Tekjur á fyrstu þremur mánuðum ársins námu 6.723 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.099 milljónum og jókst um rúmlega 30% milli ára. EBITDA hlutfallið var 31,2% borið saman við 23,3% á sama tímabili í fyrra.

Eignir Símans námu 63,6 milljörðum króna og eigið fé 35 milljörðum í lok fyrsta ársfjórðungs og var eiginfjárhlutfall 55,1%. Handbært fé frá rekstri í lok tímabilsins nam 4.265 milljónum borið saman við 3.560 milljónir á fyrsta ársfjórðungi 2016. Hækkun á handbæru fé nam 598 milljónum.

Í tilkynningu frá Símanum segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, að reksturinn hafi batnað myndarlega milli ára, fyrst og fremst vegna hagræðingaraðgerða innan samstæðunnar, aukinnar sölu Sensa á þjónustu og lausnum, sem og vaxandi eftirspurnar eftir sjónvarpsþjónustu Símans.