Skeljungur hagnaðist um rétt tæpa 1,6 milljarð króna á fyrstu níu mánuðum þessa árs samanborið við 1,1 milljarð á sama tímabili í fyrra, jókst því hagnaðurinn um 34% milli ára. Þetta kemur fram i nýbirtum ársreikningi fyrirtækisins en fram kemur að þetta sé besta ár Skeljungs frá upphafi.

Þriðji ársfjórðungur

Hagnaður á hlut var 0,35 en var 0,21 á sama tímabili í fyrra. Framlegð nam 2.241 milljónum króna og hækkar um 14% frá þriðja ársfjórðungi 2017. Rekstrarkostnaður lækkar um 47 milljónir króna milli ára eða um 4,1%. EBITDA nam 1.179 milljónir króna sem er 38% aukning frá sama tímabili ársins 2017. EBITDA framlegð var 52,6% miðað við 43,4% á sama tímabili í fyrra. Hagnaður eftir skatta nam 724 milljónum króna samanborið við 444 milljónir króna sem er 63% hækkun á milli ára. Eigið fé þann 30.9. nam 8.962 m.kr. og eiginfjárhlutfall var 35,3% í lok tímabilsins.

„Ég vil byrja á að þakka þeim sem mættu á Kauphallardaga Skeljungs í Færeyjum kærlega fyrir komuna. Á Kauphallardögunum fóru stjórnendur Skeljungs yfir stöðuna í færeysku efnahagslífi, færeyska orkumarkaðinn, aukna sölu til alþjóðlegra skipa, vetni sem orkugjafa, lóðamál félagsins og framtíðarsýn félagsins hvað varðar Orkustöðvarnar, þ.e. þá sýn félagsins að spara neytendum bæði tíma og peninga. Afar ánægjulegt var hve vel var mætt og að allir haghafahópar markaðarins áttu þar fulltrúa. Ég vil árétta að sem fyrr standa dyr okkar opnar þeim sem áhuga hafa á því að eiga með okkur fundi varðandi málefni félagsins. Þriðji ársfjórðungur kom mjög vel út, líkt og fyrri fjórðungar þessa árs. Eftir fyrstu níu mánuði ársins er árið 2018 nú þegar orðið besta rekstrarár í sögu Skeljungs," segir Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs.

„Selt magn heldur áfram að aukast í öllum tegundum utan flugvélaeldsneytis. Einnig höldum við áfram tiltektinni í rekstrinum, til þess að geta mætt kostnaðarþrýstingi bæði í Færeyjum og á Íslandi og haldið áfram að bjóða upp á ódýrt eldsneyti til neytenda. Ég vil hér einnig benda á að rekstrarniðurstöður okkar eru ekki háðar hækkandi olíuverði nema að takmörkuðu leyti, þar sem félagið er að mestu leyti áhættuvarið. Til þess að minnka rekstraráhættu kýs Skeljungur heldur að áhættuverja sig en að afkoma félagsins sé háð utanaðkomandi sveiflukenndum áhættuþáttum. Af rekstrinum er frá því að segja að sölu- og þjónustusamningur við Costco var endurnýjaður á dögunum. Mun Skeljungur því þjónusta Costco áfram á næsta ári. Undirbúningur þriðju vetnisstöðvarinnar að Miklubraut fer einnig að ná hámarki, auk þess sem vinna við breytingar á verslunum 10-11 í Kvikk er á lokastigum. Við stöldrum því stutta stund við til þess að njóta niðurstöðu uppgjörsins en höldum svo ótrauð áfram til þess að tryggja áframhaldandi árangur Skeljungs."