Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Skinney-Þinganes hf. hagnaðist um ríflega 3,6 milljarða króna í fyrra samkvæmt ársreikningi. Hagnaðurinn jókst um ríflega 50% milli ára því árið 2012 nam hann tæplega 2,4 milljörðum. Rekja má aukninguna til gengismunar, sem var jákvæður um tæpa 1,5 milljarða króna í fyrra en neikvæður um ríflega 200 milljónir árið 2012. Rekstrartekjur námu 10,6 milljörðum samanborið við 11,9 milljarða árið 2012. Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir samstæðunnar 23,8 milljörðum samanborið við 23,3 milljarða árið á undan. Skuldir námu tæpum 14 milljörðum króna í fyrra en 15,4 árið á undan.

Eigið fé var 9,8 milljarðar samanborið við 7,8 milljarða árið á undan. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 41,5%. Í lok ársins voru hluthafar í félaginu 148 sem er sami fjöldi og var í upphafi árs. Stærstu hluthafarnir eru Tvísker ehf., sem á tæplega 20% hlut, og Ingvaldur Ásgeirsson sem á um 14% hlut. Ingólfur Ásgrímsson, Gunnar Ásgeirsson, Birgir Sigurðsson og Skinney Þinganes hf. eiga á bilinu 9-11% hver. Aðrir hluthafar eiga minna en 3% en á meðal þeirra er Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sem á tæp 3%.