Hagnaður Sláturfélags Suðurlands á síðasta ári nam 160 milljónum króna, sem er 71% samdráttur frá fyrra ári þegar hagnaðurinn nam 562 milljónum króna.

Segir félagið að minnkandi hagnað megi fyrst og fremst rekja til aukins innflutnings á kjöti. Jafnframt var afkoma dótturfélaga lakari, en samstæðan samanstendur af sláturfélaginu sjálfu og dótturfélögunum Reykjagarðs hf. og Holt og gott ehf. Rekstrartekjur félagsins drógust þó mun minna saman eða um tæplega 1% úr 11.859 milljónum króna í 11.741 milljón króna.

Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 304 milljónir króna, en 823 milljónir króna árið áður, sem er samdráttur um 63%. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 704 milljónir króna sem er samdráttur um 41% frá árinu áður þegar hann var 1.195 milljónir króna.

Launakostnaðurinn jókst um 11%

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 109 milljónir króna, en voru 123 milljónir króna árið áður. Gengistap var 17 milljónir króna samanborið við 6 milljón króna gengistap árið áður. EBITDA afkoma félagsins var 704 milljónir króna en hún var 1.195 milljónir króna árið 2016. Eigið fé félagsins nam 5.181 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var 60%. Heildareignirnar í lok árs námu 8.657 milljónum króna.

Vöru- og umbúðanotkun kostaði um 5.825 milljónir króna sem er samdráttur frá 5.877 milljónum króna árið áður.  Launakostnaðurinn hækkaði hins vegar um tæp 11% upp í 3.240 milljónir króna og hækkaði um tæp 11%, annar rekstrarkostnaður var 1.984 milljónir króna og hækkaði um rúm 6%.  Afskriftir hækkuðu um rúm 7%.

Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 691 milljónir króna árið 2017 samanborið við 1.188 milljónir króna árið 2016, sem er 41% samdráttur. Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2017 var í aprílmánuði greiddur 12,1% arður af B-deild stofnsjóðs alls 22 milljónir króna og reiknaðir 5% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 17 milljónir króna.