Rekstrartekjur Sláturfélags Suðurlands á fyrstu sex mánuðum ársins jukust um 8% milli ára, auk þess sem hagnaður samstæðunnar jukust um 11%. Þetta kemur fram í árshlutareikningi samstæðunnar .

Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu á fyrstu sex mánuðum ársins var 255 m.kr.  Á sama tímabili árið áður var 230 m.kr. hagnaður.  Því er um tæpa 11% aukningu að ræða. En eigið fé Sláturfélagsins nam 3.805 m.kr. í lok júní.

Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 5.757 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2014, en 5.351 m.kr. á sama tíma árið áður og hækka því um 8%. Aðrar tekjur voru 11 m.kr en 14 m.kr. árið áður.

Launakostnaður hækkaði um tæp 6%, annar rekstrarkostnaður lækkaði um rúm 6% og afskriftir hækkuðu um 9%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 375 m.kr., en 380 m.kr. árið áður.  Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 532 m.kr.  en var 524 m.kr. á sama tíma í fyrra.

Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2014 var í aprílmánuði greiddur 13,7% arður af B-deild stofnsjóðs alls 25 m.kr. og reiknaðir 6% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 18 m.kr.

Áframhaldandi neikvæð áhrif af innflutningi

Gert er ráð fyrir áframhaldandi neikvæðum áhrifum af vaxandi innflutningi á kjöti á rekstur afurðahluta félagsins. Einnig ríkir nokkur óvissa með afsetningu á hluta kindakjötsafurða sem falla til í haust. Reiknað er með að erfiðar markaðsaðstæður á kjötmarkaði hafi neikvæð áhrif á afkomu kjötiðnaðar á síðari árshelmingi.