Breski bankinn Standard Chartered hagnaðist um 1,82 milljarða dali fyrir skatta á fyrri helmingi ársins og var hagnaðurinn um 44% minni en á sama tíma í fyrra, samkvæmt frétt BBC News . Fjárhæðin jafngildir 247 milljörðum íslenskra króna.

Tekjur bankans námu 8,5 milljörðum dala á tímabilinu og drógust saman um 8% frá fyrra ári. Lækkandi tekjur og vond lán höfðu töluverð áhrif á afkomuna, samkvæmt tilkynningu frá bankanum. Þá var greint frá því að arðgreiðslur til eigenda myndu aðeins nema helmingi þeirrar fjárhæðar sem greidd var út í fyrra.

Bankinn réði Bill Winters, sem áður var hjá JP Morgan, í stöðu framkvæmdastjóra í staðinn fyrir Peter Sands í síðasta mánuði. Við kynningu uppgjörsins í gær greindi Winters frá áætlunum sínum um hagræðingu í rekstri bankans þar sem stjórnendum yrði skipt út og skipurit bankans einfaldað.