Hagnaður TM í fyrra nam 2.074,3 milljónum króna, samanborið við 2.336,7 milljóna króna hagnað árið 2013, að því er kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins. Hagnaður fyrir skatta var 2.417 milljónir króna, en var 2.593 milljónir króna árið áður.

Framlegð af vátryggingarstarfsemi minnkaði úr 871 milljón árið 2013 í 117 milljónir í fyrra og hagnaður af vátryggingastarfsemi lækkaði úr 1.593 milljónum árið 2013 í 291 milljón í fyrra. Fjárfestingatekjur jukust hins vegar úr 2.094 milljónum í 2.615 milljónir og ávöxtun fjárfestingaeigna var 10,1% í fyrra. Samsett hlutfall var 99.0% í fyrra, en var 92,4% árið á undan.

Í tilkynningu er haft eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM, að þrátt fyrir að hagnaður félagsins á árinu 2014 dragist saman milli ára hafi hann verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hagnaðurinn skýrist að stærstum hluta vegna góðrar afkomu af fjárfestingastarfsemi en vátryggingareksturinn var í járnum, bæði vegna óvenju margra stærri eignatjóna og aukinnar tíðni ökutækjatjóna.