Tryggingarmiðstöðin hf. (TM) hagnaðist um 10 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2016. Á sama tíma í fyrra nam hagnaður félagsins 72 milljónum króna, og dregst því saman um 86%.

„Afkoma félagsins var lakari en áælun gerði ráð fyrir og skýrist það fyrst og fremst af lægri fjárfestingatekjum,“ segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM. Hann segir þó að áætlun félagsins um 2,4 milljarðar króna hagnað á árinu 2016 standi óbreytt þrátt fyrir nokkra óvissu á fjármálamörkuðum.

Heildartekjur félagsins lækka úr 3.821 milljónum í 3.750 milljónir króna á milli ára. Fjárfestingartekjur námu 409 milljónum króna á fjórðungnum sem jafngildir 1,6% ávöxtun fjárfestingaeigna.

Afkoman TM var 108 milljónum króna undir áætlun. Í tilkynningu frá félaginu segir að það skýrist af krefjandi aðstæðum á verðbréfamörkuðum. Þannig hafi markaðsvísitala Gamma aðeins hækkað um 1,5% á fjórðungnum og lækkun hafi verið á erlendum hlutabréfamörkuðum.

Þá segir félagið að styrking íslensku krónunnar hafi haft neikvæð áhrif á fjárfestingatekjur tímabilsins sem nema 63 milljónum króna.