TM hagnaðist um 481 milljón króna á öðrum ársfjórðungi. Hagnaðurinn var 314 milljónir króna og eykst því um 53% milli ára. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikningi félagsins.

Tekjur TM voru 3.739 milljónir króna á ársfjórðungnum og jukust um 15% milli ára. Tekjur vegna eigin iðgjalda voru 3.114 milljónir króna og tekjur vegna fjárfestinga 616 milljónir. Gjöld TM vegna eigin tjóna jukust um 11% milli ára og voru 2.338 milljónir króna á ársfjórðungnum.

Arðsemi TM batnar milli ára, en arðsemi eigin fjár á öðrum ársfjórðungi var 20% á ársgrundvelli samanborið við 10% á sama tíma í fyrra. Aukin arðsemi skýrist að hluta af lægra eiginfjárhlutfalli, en það var 31% í lok síðasta ársfjórðungs samanborið við 41% á sama tíma í fyrra. Tjónshlutfall félagsins var 75% á öðrum ársfjórðungi, en var 72% á sama tíma í fyrra. Kostnaðarhlutfallið var 23% og hélst óbreytt milli ára.

Fjárfestingar ganga vel en vátryggingar síður

Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar segir að auknar fjárfestingatekjur skýrist fyrst og fremst af hækkunum á innlendum hlutabréfamarkaði og jákvæðri afkomu fasteignatengdra fjárfestinga. Fjórðungurinn hafi verið í ágætu samræmi við áætlanir ef frá eru talin tvö stærri tjónamál vegna sjótrygginga.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir í tilkynningu að rekstur félagsins hafi gengið vel á öðrum ársfjórðungi. „Ójafnvægis gætir þó enn á milli starfsþátta vátrygginga og fjárfestinga. Fjárfestingatekjur á tímabilinu tvöfaldast milli ára á meðan vátryggingastarfssemin var heldur lakari þar sem samsett hlutfall hækkar úr 95% í 98%,“ segir hann.