Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar á þriðja ársfjórðungi nam 208 milljónum króna sem er samdráttur um rúmlega 4% frá sama tíma í fyrra þegar hann nam 217 milljónum. Hagnaðurinn miðað við fyrstu níu mánuði ársins hefur minnkað öllu meira eða úr 2.092 milljónum í fyrra í 357 milljónir í ár.

Samsett hlutfall þriðja ársfjórðungs nam 96,2% sem er nokkru hærra en fyrir ári þegar það var 92%. Samsett hlutfall, sem er mælikvarði á afkomu af tryggingarrekstri, sýnir að tjóna- og rekstrarkostnaður hefur hækkað sem hlutfall af iðgjöldunum sem eiga að standa undir kostnaðinum.

Er hlutfallið nokkru hærra en það hafði verið spáð að það yrði 93% í afkomuviðvörun frá því júlí síðastliðnum fyrir þriðja ársfjórðung. Nú spáir félagið að hlutfallið verði 104% fyrir árið, það er að afkoman af tryggingarekstri verði neikvæð. Ávöxtun fjárfestingareigna nam 0,8% á þriðja ársfjórðungi og námu þær 238 milljónum króna í heildina.

Sigurður Viðarsson forstjóri TM segir afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi undir væntingum. „Enn einn fjórðunginn lenti félagið í stóru tjóni sem litar afkomuna,“ segir Sigurður, en félagið segir skýringuna m.a. stórtjón vegna vatnsleka í byrjun september og hærra ökutækjatjón en á sama tíma í fyrra.

„Þá voru fjárfestingatekjur lægri en spáð hafði verið sökum erfiðra aðstæðna á innlendum hlutabréfamarkaði. Rekstrarspá félagsins hefur verið uppfærð og gerum við nú ráð fyrir að samsett hlutfall til næstu 12 mánaða verði 96% og ávöxtun
fjárfestingaeigna 8,7%.”