Hagnaður TM nam 966 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017. Hagnaður félagsins á sama tímabili í fyrra nam 10 milljónum króna og eykst hann því um 956 milljónir milli ára.

Eigin iðgjöld félagsins námu 3.474 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi ársins og jukust um 146 milljónir milli ára eða um 4%. Fjárfestingartekjur TM stórjukust milli ára en þær námu 1.326 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017 og jukust þær um 224% milli ára.

Samsett hlutfall TM síðastliðna tólf mánuði er 97% og segir í tilkynningu frá félaginu að vátryggingastarfsemi var í samræmi við áætlanir félagsins á fyrsta ársfjórðungi.  Fyrstu þrír mánuðir ársins eru yfirleitt tjónaþungir og samsett hlutfall var 106% samanborið við 107% á fyrsta ársfjórðungi 2016.

Ef litið er til síðustu 12 mánaða er samsett hlutfall félagsins 97% og áætlanir félagsins gera áfram ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2017 verði 94%. Framlegð af vátryggingastarfsemi batnar eilítið á milli ára – er neikvæð um 225 milljón krónur en var neikvæð um 240 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2016.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM segir við tilfellið: „Afkoma TM á fyrsta ársfjórðungi var mjög góð og langt umfram væntingar félagsins. Skýrist það af mjög góðri afkomu af fjárfestingastarfsemi. Afkoma af vátryggingastarfsemi var í takti við spár og ánægjulegt að sjá að vátryggingastarfsemin heldur sama takti og árið 2016 með 97% samsettu hlutfalli undanfarna 12 mánuði. Félagið hefur nú tekið upp aðferðafræði „Beyond Budgeting“ við rekstrarspár og mun framvegis birta 12 mánaða hlaupandi spár við hvert árshlutauppgjör. Gert er ráð fyrir 94% samsettu hlutfalli á árinu 2017 og út spátímabilið til loka fyrsta ársfjórðungs 2018.“