Hagnaður af rekstri Vátryggingafélags Íslands hf. nam 917 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2017 samanborið við 93 milljónir á sama tímabili í fyrra. Er hagnaður tímabilsins því tæplega tífalt hærri en sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í rekstrarreikningi fyrir annan ársfjórðung.

Hagnaður fyrirtækisins á  fyrstu sex mánuðum ársins 207 var 1.107 milljónir, sem er aukning upp á 365,1% frá sama tímabili í fyrra.

Heildartekjur félagsins á tímabilinu námu 5.482 milljónum króna og jukust um 20,4% milli ára. Eigin iðgjöld á tímabilinu námu 4.969 milljónum króna sem er aukning upp á 15,6% frá sama tímabili í fyrra.

Heildargjöld VÍS námu 4.384 milljónum á tímabilinu og drógust saman um 6,8% frá sama tímabili í fyrra. Eigin tjón námu 3.064 milljónum samanborið við 3.549 milljónir í fyrra.

Samsett hlutfall tímabilsins var 84,2% samanborið við 105,1% sama tímabil árið 2016.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins segir Helgi Bjarnason forstjóri VÍS:

„Annar ársfjórðungur var félaginu hagfelldur. Samsett hlutfall var 84,2% sem er með því lægsta sem við höfum séð um langt árabil og var afkoma viðunandi af flestum vátryggingagreinum á tímabilinu. Sá iðgjaldavöxtur sem við höfum séð síðustu misseri heldur áfram og er þar bæði um að ræða hærri meðaliðgjöld, en einnig ný viðskipti. Þannig eru eigin iðgjöld að vaxa um 15,6% frá sama tímabili í fyrra. Félagið hefur frá árinu 2015 unnið að breytingum á iðgjöldum til að bregðast við mikilli hækkun í tíðni tjóna og tjónakostnaðar. Því er niðurstaða fjórðungsins gleðiefni og vonast er til að farið sé að draga úr þeirri miklu hækkun tjónakostnaðar sem verið hefur undanfarna ársfjórðunga.“