Hagnaður VÍS á þriðja ársfjórðungi nam 570,5 milljónum króna, samanborið við 454,9 milljóna króna hagnað á sama tíma í fyrra. Hagnaður fyrstu níu mánuða þessa árs nam 1.989,5 milljónum króna, en var á sama tímabili í fyrra 905,8 milljónir. Munurinn milli ára á rekstrarreikningi fyrirtækisins er mestur í liðnum gangvirðisbreytingar fjáreigna, en þessi liður er jákvæður um 2.624,4 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum þessa árs, en var jákvæður um 920,7 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Iðgjöld tímabilsins námu 12.390 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum þessa árs samanborið við 11.853 milljónir sama tímabil í fyrra og nemur hækkunin 4,5%. Framlegð af vátryggingarekstri var neikvæð um 468 milljónir króna, en á sama tímabili í fyrra var framlegð af vátryggingarekstri jákvæð um 20 milljónir. Kostnaðarhlutfall var 21,3% á tímabilinu samanborið við 21,6% á sama tímabili í fyrra og samsett hlutfall var 104,7% en var 100,8% á sama tímabili í fyrra.

Eigið fé félagsins lækkaði úr 15.956 milljónum króna í ársbyrjun í 14.546 milljónir í septemberlok og eiginfjárhlutfall var 31,1% í lok tímabilsins. Arðsemi eigin fjár var 17,4% á fyrstu níu mánuðum ársins.

Í tilkynningu er haft eftir Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur, forstjóra VÍS, að góð afkoma skýrist af góðri ávöxtun fjárfestingaeigna. Fjárfestingastarfsemin hafi gengið vel á árinu og sé jákvæð afkoma af öllum eignaflokkum. Ánægjulegt sé að sjá að góður vöxtur sé í innlendum iðgjöldum. Hækkun á bókfærðum iðgjöldum fyrstu níu mánuði ársins hafi verið 5,4% og hækki bókfærð iðgjöld á þriðja ársfjórðungi um 9,4% frá þriðja fjórðungi í fyrra.

Þrátt fyrir iðgjaldavöxt hafi umtalsverður vöxtur í tjónatíðni á tímabilinu valdið því að tjónakostnaður hafi aukist meira en sem nemi hækkun iðgjalda. Afkoma af ökutækjatryggingum sem telja um helming af iðgjöldum félagsins sé óviðunandi á öllum fjórðungum rekstrartímabilsins.

Í tilkynningu segir að reiknað sé með því að iðgjöld ársins vaxi um ríflega 4%. Ólíklegt sé að markmið félagsins um að samsett hlutfall á árinu 2015 verði undir 100% náist og muni þar mestu um aukinn tjónaþunga vegna óveðurs á fyrri hluta ársins og verulega aukningu tjónakostnaðar á ökutækjatryggingum. Afkoma af fjárfestingarstarfsemi hafi verið góð á rekstrartímabilinu og fari sem horfir séu væntingar um að ávöxtun á árinu í heild verði ágæt.

Gengi bréfa VÍS hækkaði um 1,55% í viðskiptum í kauphöll í dag.