Hagnaður af rekstri Vátryggingafélags Íslands hf. nam 238 milljónum króna á fyrri hluta ársins 2016, samanborið við 1,4 milljarð króna hagnað fyrir sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í rekstrarreikningi fyrir annan ársfjórðung.

Hagnaður fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi 2016 var 92 milljónir, sem er töluvert minna en á sama tímabili í fyrra, þegar hann nam 685 milljónum.

Heildartekjur VÍS á öðrum ársfjórðungi árið 2016 voru 4,5 milljarðar og lækka því frá því í fyrra, þegar tekjurnar námu 4,9 milljarða. Samanteknar tekjur fyrri helmings ársins 2016 voru 9,1 milljarðar.

Eigin tjón VÍS hækkuðu jafnframt frá því í fyrra þegar þau námu 3,2 milljörðum á öðrum ársfjórðungi, en voru 3,5 milljarðar á sama tímabili í ár.

Fjárfestingartekjur VÍS lækkuðu einnig umtalsvert milli ára. Námu þær 200,3 milljónum króna á öðrum fjórðungi þessa árs, samanborið við 951,6 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Eigin iðgjöld hækkuðu hins vegar úr 3,9 milljörðum fyrir annan ársfjórðung í fyrra  í 4,3 milljarða fyrir sama tíma á þessu ári.

Því kemur ekki á óvart að Sigrún Ragna Ólafsdóttir telji afkomu tímabilsins undir væntingum - bæði varðandi vátrygginga- og fjárfestingastarfsemina. Í tilkynningu er þó haft eftir henni að hún telji vöxt iðgjalda ágætan á fyrri helming ársins.