Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, hagnaðist um ríflega milljarð árið 2016. Árið 2015 hagnaðist félagið um tæplega 1,3 milljarða og minnkar því hagnaður Fjarskipta um 22% milli ára. Rekstrarhagnaður Fjarskipta nam 1,6 milljarði árið 2016 samanborið við 1,9 milljarð króna hagnað árið áður.

EBIDTA hagnaður ársins 2016 nam 3 milljörðum og minnkar um 6% frá árinu 2015. Hagnaður á hlut nam 3,5% sem er 1% lækkun milli ára. Heildartekjur Fjarskipta námu 13.655 milljónum króna á árinu 2016 samanborið við 13.724 milljónir árið áður.

Í lok árs 2016 nam eigið fé Vodafone tæpum 7 milljörðum króna samanborið við 9 milljarða í lok árs 2015. Skuldir samstæðunnar í árslok 2016 námu 7,7 milljörðum samanborið við 6,4 milljarða í lok árs 2015. Handbært fé frá rekstri í lok árs 2016 nam 3 milljörðum sem er hækkun 6% milli ára. Eiginfjárhlutfall Fjarskipta nam 47,6%. Framlegð ársins nam 6.232 milljón krónum og lækkar um 2% milli ára. Fjárfestingar ársins námu 1.539 milljónum króna sem er 1% lækkun milli ára.

EBITDA horfur félagsins eru hækkaðar á ný fyrir árið 2017 og eru áætlaðar í kringum 3.250 milljónir króna fyrir árið 2017. Stjórn félagsins leggur til að ekki verður greiddur út vegna rekstrarársins 2016.

Fjórði ársfjórðungur

Hagnaður Fjarskipta á fjórða ársfjórðungi ársins 2016 nam 170 milljónum, samanborið við 249 milljón króna hagnað á sama tímabili árið áður. Félagið seldi vörur og þjónustu fyrir 3.450 milljónir króna á ársfjórðungnum árið 2016. Rekstrarkostnaður Fjarskipta á tímabilinu nam 1.193 milljónum króna samanborið við 1.196 milljónir á sama tímabili árið áður.

EBITDA Fjarskipta á fjórða ársfjórðungi 2016 nam 694 milljónum, samanborið við 716 milljónir árið áður.

Unnið að kaupsamning á ljósvaka- og fjarskiptahluta 365 miðla

„Árið 2016 var að mörgu leyti sérstakt ár í rekstri Fjarskipta hf. þar sem margt fór saman; miklar launahækkanir í tengslum við kjarasamninga, einskiptiskostnaður vegna húsnæðismála, hagræðingaraðgerða og vinnu sérfræðinga við áreiðanleikakönnun vegna hugsanlegra kaupa á 365 miðlum hf. Á sama tíma höfðu markaðsaðstæður neikvæð áhrif á meðaltekjur af viðskiptavinum. Mótvægisaðgerðir gengu vel þar sem vöxtur í fjölda viðskiptavina hefur ekki verið meiri í seinni tíð eða 7%. Sjónvarpsvörur félagsins skiluðu mikilli aukningu í tekjum sem unnu á móti fyrrgreindum neikvæðum þáttum þrátt fyrir lækkun tekna í heildsöludreifingu sjónvarps. Horfur í rekstri félagsins fyrir árið 2017 eru betri, þar sem ætla má að hagræðingaraðgerðir árið 2016 og vöxtur viðskiptavina skili sér í betri rekstri árið 2017. Gert er ráð fyrir að félagið geti skilað um 3.250 milljónum sem væri betri niðurstaða m.t.t. EBITDA en árið 2015 sem var metár í rekstri félagsins,“ er haft eftir Stefáni Sigurðssyni, forstjóra Fjarskipta í tilkynningu um afkomu félagsins.

„Það eru spennandi tímar framundan hjá félaginu og mörg þróunarverkefni í burðarliðnum. Vodafone hefur tekið leiðtogahlutverk í IoT (Internet of Things) í samstarfi við Vodafone Group sem er leiðandi í heiminum á því sviði. Nýverið kynnti félagið tilraunaverkefni í samstarfi við Huawei varðandi NB-IoT (Narrowband Internet of Things) kerfi, en þessi tækni mun gera Íslendingum kleift að vera meðal leiðandi þjóða í hlutanetsbyltingunni á næstu árum.  Enn er unnið að gerð kaupsamnings vegna fyrirhugaðra kaupa á ljósvaka- og fjarskiptahluta 365 miðla hf. og bindum við vonir við að sú vinna klárist fyrir lok fyrsta ársfjórðungs. Það styttist auk þess í flutning í nýjar framtíðarhöfuðstöðvar félagsins að Suðurlandsbraut 8, sem mun skila félaginu hagræðingu en á sama tíma bæta til muna húsnæðiskost félagsins," bætir hann við.