Stjórn Lýsingar hf. samþykkti ársreikning samstæðunnar fyrr í dag, fyrir rekstrarárið 2016. Óhætt er að segja að félaginu hafi vegnað vel á árinu sem nú er liðið, enda hækkuðu tekjur hressilega, auk þess sem kostnaður lækkaði.

Hreinar vaxtatekjur samstæðunnar námu alls 1.442 milljónum króna, sem er um 9,6% hærra en frá fyrra ári. Þá voru heildar tekjurnar alls 2.035 milljónir króna og hækkuðu þær um 25,5% á milli ára.

Rekstrarkostnaðurinn lækkaði alls um 22,8% milli ára og nam 1.131 milljón króna.

Hrein virðisbreyting var þá jákvæð um 729 milljónir, sem er 198 milljón króna aukning frá fyrra ári.

Alls jókst hagnaðurinn um 124% og nam samkvæmt tilkynningu félagsins 1.361 milljónum króna árið 2016.

Eigið fé nam alls 11.956 milljónum króna og var arðsemi eigin fjár 12,1%. Þá voru heildareignir Lýsingar skráðar á 25.962 milljónir í bókum félagsins. Reiknað eiginfjárhlutfall nam alls 52,5% í árslok.