Hagnaður Iceland Seafood nam tæpum 2,6 milljónum evra á síðasta ári en það jafngildir 311 milljónum króna miðað við meðalgengi ársins 2017. Hagnaðurinn er nánast sá sami og árið áður.

Félagið seldi afurðir fyrir 249,1 milljón evra á árinu sem er söluaukning um liðlega 2,8 milljónir evra frá árinu áður. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði nam 4,6 milljónum evra.

Heildareignir félagsins í lok árs námu 88,2 milljónir evra og jukust um liðlega 13,1 milljón á milli ára. Eigið fé félagsins nam 17,7 milljónum og skuldir 70,4 milljónum. Eiginfjárhlutfall félagsins í lok árs var því 20,1% og lækkar um 0,4 prósentustig milli ára. Arðsemi eigin fjár nam því 14,7% á árinu 2017.

Handbært fé félagsins nam 2,2 milljónum evra í lok árs og jókst um 0,4 milljónir frá því í byrjun árs.