Afkoma bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs á þriðja ársfjórðungi var töluvert yfir væntingum greiningaraðila. Hagnaður bankans á ársfjórðungnum jókst um 79% frá því á sama tímabili í fyrra og nam 2,85 milljörðum Bandaríkjadala, eða 6,13 dölum á hlut. Spár greiningardeilda höfðu að meðaltali gert ráð fyrir 4,35 dala hagnaði á hlut.

Tekjur bankans jukust um 63% og námu samtals 12,33 milljörðum dala, auk þess sem tekjur af fjárfestingabankastarfsemi hafa aldrei verið meiri.

Þrátt fyrir góða afkoma þurfti bankinn að afskrifa 1,5 milljarða dala vegna útlánataps, sökum undirmálslánakrísunnar vestanhafs. Gengi bréfa í Goldman Sachs hafði hækkað um 1% á hádegi að bandarískum tíma í gær.